Ásgerður Búadóttir: Lífs­fletir

Ásgerður Búadóttir: Lífsfletir

Ásgerður Búadóttir: Lífsfletir

Kjarvalsstaðir

-

Ásgerður Búadóttir (1920-2014) var brautryðjandi á sviði listvefnaðar á Íslandi og í verkum hennar sameinast aldagamlar aðferðir handverksins og frjáls sköpun nútímamyndlistar. Efniviður Ásgerðar var fyrst og fremst íslensk ull en á áttunda árutug síðustu aldar vöktu glæsilegar veftir hennar verðskuldaða athygli fyrir frumlega efnisnotkun þar sem ull og hrosshár mynda ofna heild og skapa ríka efniskennd.

Ásgerður stundaði nám í Handíða- og myndlistaskólanum, meðal annars undir handleiðslu Kurt Zier, og síðar við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn í málaradeild Wilhelms Lundstrøm. Ásgerður var sjálfmenntuð á sviði vefjarlistar að undanskildu stuttu kvöldnámskeiði.

Að loknu námi í Kaupmannahöfn festir hún kaup á vefstól og flytur með sér til Íslands og þar með voru örlög hennar á myndlistarbrautinni ráðin. Hún var frá upphafi virkur þátttakandi í íslensku og norrænu myndlistarlífi, þar sem myndlistarmenntunin nýttist henni vel til útfærslu verka í nýjum miðli.

Máttur teikningarinnar var ávallt mikilvæg undirstaða í verkum Ásgerðar og rík efniskennd og öguð vinnubrögð einkenna allt höfundarverk hennar. Litanotkun Ásgerðar var naum, hún notaði mest sauðaliti en um miðjan sjöunda áratuginn fór hún að lita band sjálf og þá bættust við blár indígólitur, auk þess sem krapprót og mulin kaktuslús gáfu rauða, gulrauða og rauðbrúna litatóna. 

Ásgerður vann til gullverðlauna árið 1956 á alþjóðlegri list- og handverkssýningu í München sem markaði upphaf að glæsilegum og áhrifamiklum ferli hennar. Titill sýningarinnar vísar til verksins Sjö lífsfletir sem Ásgerður óf í minningu sjö merkra listakvenna sem allar voru áberandi á kvennaáratugnum og féllu frá með nokkurra ára millibili. Á verkinu eru sjö fletir sem tengjast saman og á borða sem liggur niður með verkinu og út á gólf eru nöfn kvennanna: Nína (Tryggvadóttir), Barbara (Árnason), Gerður (Helgadóttir), Áslaug (frá Heygum), Eyborg (Guðmundsdóttir), Ragnheiður (Jónsdóttir Ream) og María (Ólafsdóttir).

Á sýningunni Lífsfletir er verkum Ásgerðar sem spanna allan hennar starfsferil gerð ítarleg skil, allt frá fígúratífum skissum og minni verkum frá námsárunum til stærri, óhlutbundinna verka sem teljast til lykilverka listamannsins.

Árið 2020 eru hundrað ár liðin frá fæðingu Ásgerðar Búadóttur.

Af því tilefni efnir Listasafn Reykjavíkur til yfirlitssýningar á verkum Ásgerðar og síðar á árinu stendur Listasafn Íslands fyrir samsýningu þar sem verk hennar verða skoðuð í samhengi við nokkra listamenn samtímans sem nota vefnað sem miðil í sinni listsköpun..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun

Ítarefni

Umfjöllun fjölmiðla PDF

Sýningarskrá

Sýningarstjóri/-ar

Aldís Arnardóttir

Umfjöllun fjölmiðla

Listamenn

Boðskort