Antoni Tàpies: Mynd, líkami, tregi

Antoni Tàpies: Mynd, líkami, tregi

Antoni Tàpies: Mynd, líkami, tregi

Kjarvalsstaðir

-

Sýning á verkum Antonis Tàpies, eins fremsta málara og myndhöggvara samtímans, verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur – Kjarvalsstöðum næstkomandi laugardag. Tàpies er Katalóníumaður, fæddur í Barcelona árið 1923 en hann lést fyrir réttum mánuði síðan, þá 88 ára að aldri og er sýningin á Kjarvalsstöðum sú fyrsta sem opnuð er eftir andlát hans. Á sýningunni verða sýnd málverk frá rúmlega sjö áratuga ferli listamannsins, en hann er almennt talinn einn helsti áhrifavaldur í þróun málverksins á síðari hluta tuttugustu aldarinnar.

Tàpies var undir sterkum áhrifum frá súrrealískum málurum á borð við Miro og Klee í upphafi ferils síns, en síðar meir þróaði hann sitt eigið myndmál með uppbyggðum myndfleti sem oft var ýfður upp með stöfum, tölum og táknum.

Flest verka hans eru úr hversdagslegum hlutum, fundnu efni, mold, sandi, jarðvegi, þurrkuðu blóði og steinryki. Tàpies var aðeins sautján ára þegar hann fékk hjartaáfall af völdum berkla. Í endurhæfingunni stúderaði hann myndlist af miklum móð, en var ekki nógu kjarkaður til að fylgja köllun sinni eftir, heldur skráði sig í lögfræði. Eftir tveggja ára nám gekkst hann þó við köllun sinni og helgaði sig alfarið myndlistinni allt til dauðadags.

Tàpies var alla tíð pólitískur og róttækur einstaklingur en við opnun Fundacio Antoni Tàpies stofnunarinnar í Barcelona árið 1990 sagði hann: „Þó að ég geti ekki breytt heiminum, þá vil ég að minnsta kosti breyta því hvaða augum fólk lítur hann.“ Sýningin, sem ber yfirskriftina Antoni Tàpies – Mynd, líkami, tregi er nýtt og víðtækt yfirlit yfir starfsferil listamannsins og var unnin í nánu samstarfi við hann sjálfan, Fundació Antoni Tàpies stofnunina í Barcelona og Museum für Gegenwartskunst í Siegen í Þýskalandi, þar sem hún var fyrst sett upp. Sýningunni fylgir vegleg sýningarskrá á þýsku og ensku.

Hún er gefin út af Snoeck Verlag í Köln og þar er að finna myndir af öllum verkum á sýningunni auk greina eftir virta fræðimenn..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun