Alistair Macintyre: Veran í deginum

Alistair Macintyre: Veran í deginum

Alistair Macintyre: Veran í deginum

Kjarvalsstaðir

-

Náttúran geymir upphaf og endi alls lífs á jörðu. Hún fóstrar líf, nærir það og elur til fulls þroska, og allt hverfur það aftur til jarðarinnar þegar yfir lýkur. Náttúran er með sama hætti endastöð allrar mannlegrar viðleitni; mannvirki, framkvæmdir og menningarleg sköpun af öllu tagi er þegar allt kemur til alls háð náttúruöflunum, og mun um síðir þurfa að lúta kröftum þeirra - eyðast og verða afmáð, þar til aðeins óljós minningarbrot verða eftir, háð tilviljunum náttúrunnar og tímans um varðveislu eða eyðileggingu.

Þessi staðreynd lífs og dauða, endingar og eyðileggingar eru undirstaða leitar listamannsins Alistair Macintyre að þeim gildum, sem hann leggur til grundvallar í listsköpun sinni.

Í stað þess að bjóða hinum eyðandi öflum náttúrunnar byrginn hefur hann kosið að vinna með þeim, láta þau taka þátt í að skapa einstök listaverk, sem byggjast m.a. á þeim minjum fortíðar, sem náttúran hefur kosið að skila til okkar. Minningarbrot mannlegrar viðleitni í fortíðinni öðlast þannig nýtt líf í samhengi nýrra tíma, og verða að undirstöðu listaverka í samtímanum..