Sex verk eftir Rögnu Róberts­dóttur bætast í safneignina

Ólöf K. Sigurðardóttir, Ragna Róbertsdóttir og Sigurður Gísli Pálmason í Hafnarhúsi

Listasafn Reykjavíkur fagnar veglegri viðbót við safneign.

Listasafn Reykjavíkur fagnar veglegri viðbót við safneign í kjölfar innkaupa listaverka eftir Rögnu Róbertsdóttur með stuðningi frá velunnara, Sigurði Gísla Pálmasyni, sem reglulega hefur stutt safnið við metnaðarfull listaverkakaup.

Hjá Listasafni Reykjavíkur hefur, undir stjórn Ólafar Kristínar Sigurðardóttur safnstjóra, verið unnið að því að endurskoða hlut kvenna í íslenskri listasögu og þá um leið rýna eigin safneign. Þetta hefur leitt til þess að innkaup verka eftir konur hafa notið forgangs. Nýverið var sett upp sýningin „List er okkar eina von“ í Hafnarhúsi þar sem sýnd voru nýjustu aðföng í safneigninni eftir konur.

„Undanfarin ár höfum við unnið markvisst að því að endurskoða hlut kvenna í íslenskri listasögu og rýna í hvernig þær birtast í safneign okkar - það er liður í því að skapa jafnvægi og réttláta sýn á menningararfinn. Með þessari nýjust viðbót við safneignina má segja að stórt áfangi hafi náðst “ segir Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur.

Nú hefur verið stigið enn eitt mikilvægt skref á þessar vegferð með innkaupum á sex listaverkum eftir Rögnu Róbertsdóttur (f.1945). Verkin sem nú rata í safneign Listasafns Reykjavíkur eru góð dæmi um feril hennar frá árunum frá 1989 til 2024 en fyrir átti safnið vegleg verk frá seinustu áratugum 20. aldar. Þannig varðveitir safnið nú glæsileg verk sem endurspegla feril Rögnu og þá um leið afar áhugavert framlag hennar til íslenskrar menningar. Ragna Róbertsdóttir hefur í áratugi verið á meðal fremstu samtímalistamanna landsins og lykilpersóna þegar kemur að íslenskri naumhyggju og hugmyndalist. Verk hennar hafa verið sýnd víða jafnt hérlendis sem erlendis og einkennast af einfaldleika, nánd við náttúru og efnislega djúpum hugleiðingum en hún hefur í gegnum árin nýtt náttúruna sjálfa sem efnivið.

Sigurður Gísli Pálmason hefur veitt Listasafni Reykjavíkur rausnarlegan styrk til kaupa á verkunum en þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann styður safnið þegar kemur til metnaðarfullra aðfanga. Hann studdi meðal annars rausnarlega við kaup safnsins á viðamikilli vídeóinnsetningu eftir Ragnar Kjartansson, Heimsljós, sem nú er sýnd í Listasafns Reykjavíkur - Hafnarhúsi. Með þessum stuðningi sínum hefur Sigurður Gísli gert safninu kleift að eignast glæsileg listaverk og nú í þetta sinn gott yfirlit verka frá löngum ferli Rögnu Róbertsdóttur.

,,Fegurðin mun bjarga heiminum“ skrifaði Dostojevskí og það má segja að með þessari peningagjöf til Listasafns Reykjavíkur sé ég að leggja mitt af mörkum til þess að varðveita og miðla fegurð og dýpt íslenskrar samtímalistar til framtíðar kynslóða. Stuðningur minn við safnið hefur gefið mér mikið og veitt mér innblástur í gegnum tíðina. Fyrir það er ég þakklátur " - segir Sigurður Gísli Pálmason.

Á meðfylgjandi mynd eru Sigurður Gísli Pálmason, Ragna Róbertsdóttir og Ólöf Kristín Sigurðardóttir safnstjóri við verk Rögnu Róbertsdóttur sem nú er á sýningunni Höfuðskepnur í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi.