Erró

Draumur Evu Braun / The Dream of Eva Braun

Breidd:

490 cm

Hæð:

220 cm

Flokkur:

Málverk

Ár:

1992

Almennur áhugi sem vaknaði í kringum frönsku heimildarmyndina The Eyes of Eva Braun eftir Patrick Jeudy árið 1991 varð líklega kveikjan að verki Errós Draumur Evu Braun. Myndin teflir saman heimildaupptökum sem sýna hrottalegan raunveruleika þriðja ríkisins og heimagerðum litupptökum Evu Braun af fjölskyldulífi í Berghof, kastala Hitlers í Bæjaralandi – sem var í raun miðstöð nasistanna. Það var þó uppgötvun Errós á bandarískri teiknimyndasögu frá 1973, Hansi, the Girl Who Loved the Swastika eftir Hal Hartley, sem leiddi til tilurðar málverksins. Sú saga byggist á sjálfsævisögu hinnar tékknesk-bandarísku Mariu Anne Hirschmann. Aðalsöguhetjan Hansi, ljóshærð og sakleysisleg, deilir örlagaþræði með Braun þar sem hún sogast inn í hringiðu nasismans. Til að túlka ímyndað líf Evu Braun blandaði Erró senum úr Hansi saman við myndir af bandarískum hermönnum úr Sgt. Rock, klassískri stríðsteiknimyndaröð frá DC Comics (1977–1988). Hann setti þessar myndir innan í þrívíða vírgrind – „járnnet“ – sem myndar bylgju sem minnkar smám saman, líkt og söguleg framvinda sem ekki verður stöðvuð. Í bakgrunninum má sjá blikandi bleikar verur, þar á meðal Plasmax, hnöttóttan morðingja úr Starman #29 (DC Comics, 1990), sem táknar hnignun nasismans.