Hæð:
29 cm
Flokkur:
Skúlptúr
Ár:
1928
Myndina gerði Ásmundur í París veturinn 1927 þegar hann var með vinnustofu við Constansgötu 11 í Montmartre-hverfinu. Verkið sýnir mann og konu sitjandi á bekk. Það ríkir mikil kyrrð og jafnvægi í þessari framsæju mynd sem byggist á lóðréttum og láréttum kröftum og sterkri samsvörun við stöðu konunnar og mannsins. Listamaðurinn leggur hér áherslu á massann og hreinar, afgerandi línur sem skilgreina formin. Í þessu verki fjarlægist listamaðurinn beina náttúruvísun og endurbyggir fyrirmyndina með hæverskri hliðsjón af formskrift kúbismans. En gagnstætt því að leysa upp formin, að hætti kúbismans, vill Ásmundur með þessari formrænu einföldun undirstrika þyngdina og massann í verkinu. Slíkur vilji átti síðar eftir að einkenna listsköpun Ásmundar í ríkum mæli. Þessi innhverfa og rómantíska mynd, sem vafalítið er eitt af þekktustu verkum Ásmundar, minnir okkur á ástina í verkum listamannsins, en sjálfur sagði hann um verkið í samtali við Matthías Johannessen í Bókinni um Ásmund: „Ég veit ekki hvað þetta fólk var alltaf að gera þarna á bekkjunum. Ég fór að velta því fyrir mér. Og þá varð þessi mynd til. Þú sérð að það er ekki að gera neitt ljótt.“