Breidd:
201 cm
Hæð:
138 cm
Flokkur:
Málverk
Ár:
1964 /c. 1971
Frá árinu 1964, þegar Erró fór í sína fyrstu ferð til New York, hóf hann að gera undirbúningsklippimyndir að öllum málverkum sínum. Í þeim stillti hann saman „myndum heimsins“ sem áttu ólíkan uppruna í tíma, rými og menningarlegu samhengi. Heimkoma frá Bandaríkjunum-röðin byggir á klippimyndum þar sem eftirmyndir af frægum evrópskum málverkum eru sameinaðar táknmyndum úr bandarískri fjöldamenningu, einkum auglýsingum og teiknimyndasögum. Fyrir málverkið Refurinn stóri nýtti Erró sér Les Femmes d‘Alger (1955) eftir Picasso, sem var hnyttin endursköpun hans á meistaraverki Eugène Delacroix, Femmes d‘Alger dans leur appartement (1834). Erró skaut fígúrum úr teiknimynd Walt Disney, The Sword in the Stone (1963) glettnislega inn í ýmsa hluta litríks verks Picassos – þar á meðal riddaranum Ector og uglunni Arkímedesi. Teiknimyndin byggði á ævintýrinu The Sword in the Stone (1938) eftir T.H. White. Á sjötta og sjöunda áratugnum sneri Picasso sér að því að endurtúlka meistaraverk fortíðarinnar af kaldhæðni og hnyttni. Í Refurinn stóri tekur Erró tilvísanirnar skrefi lengra með því að má á kátlegan hátt út mörk hámenningar og dægurmenningar.