
Breidd:
168 cm
Hæð:
136 cm
Flokkur:
Málverk
Ár:
1979
Á árunum 1977 til 1978 málaði Erró seríuna Skáldin, 23 verk sem heiðra lykilskáld og rithöfunda heimsbókmenntanna. Þar á meðal er enski rithöfundurinn Charles Dickens, einn áhrifamesti skáldsagnahöfundur 19. aldar. Í þessu verki sýnir Erró Dickens að störfum, með penna í hendi, eins og hann sé að skapa lifandi senurnar sem birtast á bak við hann. Í bakgrunninum má sjá kraftmikla senu úr myndasögusamstarfi Marvel og DC frá 1976, Superman vs. The Amazing Spider-Man, þar sem fjölmennt blaðamannateymi frá Daily Planet og Daily Bugle safnast saman á ráðstefnu í New York til að sjá gervihnöttinn ComLab One afhjúpaðan – þar á meðal eru Peter Parker (Köngulóarmaðurinn) og Clark Kent (Ofurmennið). Hins vegar hefur Erró víða skipt út upprunalegum myndbrotum fyrir teikningar eftir Alberto Salinas, sem sýna lykilatriði úr lífi Dickens. Tengingin milli verka Dickens og teiknimynda byggist á víðtækum vinsældum og aðgengi. Hvort tveggja byggir á framhaldssögum, spennandi frásögnum og eftirminnilegum persónum, og gjarnan er tekist á við samfélagsmálefni og siðferðileg álitamál. Myndin af gervihnettinum virkar óvænt í fyrstu en dregur upp áhugaverða hliðstæðu – Dickens var nákvæmur rannsakandi þegar mannlegt samfélag var annars vegar og náði að fanga fjölbreytileika þess líkt og gervihnöttur sem veitir yfirsýn yfir jörðina.