Ásmundur Sveinsson

Fæðing

Þrívíð verk

Breidd:

45 cm

Hæð:

40 cm

Flokkur:

Skúlptúr

Ár:

1949

Myndina gerði Ásmundur í Reykjavík árið 1949. Hún er unnin í eik og sýnir kvenfígúru sem tákna á fæðingu. Formrænt séð fjallar verkið um efni, massa og rými. Efnið er eik sem listamaðurinn vinnur beint, slípar og pússar. Æðarnar í viðnum eru hluti af myndbyggingunni og undirstrika streymið upp eftir fígúrunni. Myndin hvílir á efnismiklum sökkli sem einnig er hluti af verkinu og mjókkar til hægri. Rýmið er afgerandi í þessu verki og er það afmarkað með hvítum strengjum. Þessir gegnsæju strengir gera það að verkum að auga áhorfandans greinir tvíræðni í massa- og rýmisvirkni myndarinnar, girnið tengir saman samhverfa myndhluta og virkar í senn sem opið og lokað form. Þetta samspil milli innra og ytra rýmis verksins færir okkur inntak myndarinnar sem gerist „úti og inni“. Úr verkinu les áhorfandinn greinilega andlit, hendur og nafla sem rautt girni er þrætt í gegnum. Andspænis verkinu spyr áhorfandinn sig eðlilega hvort myndin sýni barn eða móður. Við getum sagt að andlit hennar og hendur lýsi sælu eða þjáningu móðurinnar, en naflinn aftur á móti á einvörðungu við barnið. Þá gæti áhorfandinn túlkað verkið sem barn í móðurlífi. Fæðing býr auðsjáanlega yfir fjölmörgum túlkunarmöguleikum, en til grundvallar liggur hugmyndin um fæðingu sem tengist í senn móður og barni.