Sierra, Santiago

Svarta keilan, minn­is­varði um borg­ara­lega óhlýðni

Hæð:

180 cm

Flokkur:

Skúlptúr

Ár:

2012

Verkið er staðsett á horni Kirkjustrætis og Thorvaldsensstrætis. Verkið samanstendur af 180 sm háum steini sem hefur verið klofinn í tvennt með svartri keilu sem situr eftir í sprungunni. Keilan vísar til svartra keilulaga hatta sem spænski rannsóknarrétturinn lét sakfellda menn bera í háðungarskyni á 12. öld. Með verkinu vill listamaðurinn minna á mikilvægi borgaralegra réttinda í lýðræðissamfélagi og þann rétt þegnanna að neita því að hlýðnast óréttlátum lögum og kröfum yfirvalda. Á minnisvarðanum er plata sem á er letruð á íslensku og ensku setning úr Yfirlýsingu um réttindi manna og borgara sem birtist sem formáli að stjórnarskránni sem franska þingið samþykkti árið 1793: „Þegar ríkisstjórn brýtur á rétti þegnanna, þá er uppreisn helgasti réttur og ófrávíkjanlegasta skylda þegnanna sem og hvers hluta þjóðarinnar.“ Verkið var fyrst sett upp á Austurvelli í janúar 2012 í tengslum við yfirlitssýningu á heimildarkvikmyndum og myndböndum Santiagos Sierra í Hafnarhúsi. Að sýningunni lokinni bauð listamaðurinn Reykjavíkurborg minnisvarðann að gjöf og það þáði borgarstjórn. Staðsetning verksins við alþingishúsið og Austurvöll er vel við hæfi því að alþingishúsið er helsta tákn lýðræðis á Íslandi og Austurvöllur er staðurinn þar sem almennir borgarar koma saman til að mótmæla þegar þeim þykir ríkisvaldið beita þá órétti. Verkið tengist umhverfinu einnig í efnisvali því að steinninn er grágrýti eins og alþingishúsið sjálft og stöpullinn undir styttu Jóns Sigurðssonar. Santiago Sierra (f. 1966) býr og starfar í Madrid á Spáni. Hann stundaði þar nám og síðar í Hamborg og Mexíkóborg. Verk Sierra hafa verið sýnd í mörgum af helstu samtímalistasöfnum heims, til dæmis í Tate Modern, London, Kunst-Werke, Berlín, Palais de Tokyo, París, Irish Museum of Modern Art – IMMA, Dublin, CAC, Malaga, ICA, Boston, og P.S.1 Contemporary Art Center, New York. Santiago Sierra var fulltrúi Spánar á Feneyjatvíæringnum 2003.