Ásmundur Sveinsson

Fuglinn Fönix

Þrívíð verk

Breidd:

95 cm

Hæð:

86 cm

Flokkur:

Skúlptúr

Ár:

1961

Ásmundur skapaði Fönix í Reykjavík árið 1961 og vann verkið í eir og tveimur árum síðar var það stækkað. Fuglinn Fönix er óhlutbundið verk þar sem formin hafa þó sterka samsvörun við líkamsbyggingu fugls. Formrænt er myndin afar einföld – aðeins þrjár samsettar þríhyrndar eirplötur, sem mynda búk, háls og höfuð, og síðan tveir fætur. Umhverfis fuglinn, formið, er síðan rissað með járnlínum, sem skilgreina rými eða svigrúm fuglsins auk þess sem þær má túlka sem vænghaf. Út frá breytilegu sjónarhorni áhorfandans öðlast fuglsformið og verkið allt óreglulega hreyfingu og dýnamík, líkt og þegar fugl sest eða flýgur upp. Fönix er goðsögulegur fugl sem á rætur að rekja til Eþíópíu. Hann er öllum fuglum fegurri og langlífur með afbrigðum, er þeim eiginleika gæddur að geta endurfæðst úr ösku sinni. Þegar dauðinn nálgast býr fönixinn sér til hreiður úr ilmandi kvistum þar sem hann brennur upp í eigin hita. Táknræn merking fuglsins er því endurfæðing og ódauðleiki.