Eirún Sigurð­ar­dóttir

Raun­tím­ar­efill

Önnur verk

Breidd:

500 cm

Hæð:

85 cm

Flokkur:

Textíll

Ár:

2020

Í Rauntímareflinum kemur COVID-heimsfaraldurinn við sögu. Daginn eftir að fyrsta smitið greindist hér á landi, í upphafi árs 2020, byrjaði hún á nýju verki, metra á kant í grófan stramma. Framan af var verkið hugsað í svipuðum anda og fyrri útsaumsflæðisverk hennar. Síðasta sporið í þennan fyrsta hluta refilsins saumaði hún 8. apríl, þegar sóttvarnalæknir upplýsti þjóðina að toppinum á smitkúrfunni væri líklega náð. Hófst Eirún þá handa við að sauma næsta stramma, sem átti að vera unninn á meðan faraldurinn fjaraði út. Eins og enn er í fersku minni varð raunin allt önnur. Strammarnir urðu á endanum fimm og markast endir refilsins við daginn sem grímuskylda var afnumin hérlendis undir lok árs 2021. Glöggir áhorfendur geta ef til vill séð þróun faraldursins í óhlutbundnum formum, litaflæði og efnisvali, en einnig fléttast inn í sauminn einkalíf listamannsins og jarðhræringar á Reykjanesskaga. Eirún saumaði þó ávallt í flæði, án þess að ákveða hvert næsta skref yrði og því nánast eins og völva sem býr yfir magnaðri vitneskju um örlögin og það er undir móttakanda spádómsins komið að túlka hann.