Kristján Davíðsson

Glæður - Abstrakt mynd

Málverk

Breidd:

242 cm

Hæð:

205 cm

Flokkur:

Málverk

Ár:

1966

Kristján Davíðsson er frumkvöðull í ljóðrænni abstraktlist á seinni hluta sjötta áratugarins. Ljóðræn abstraktlist hans er þó ævinlega reist á náttúruskynjun, og eftir tímabil formleysis í myndlist Kristjáns,1956–60, fjölgar aftur tilvitnunum í náttúruna. Þessari þróun lýsir Aðalsteinn Ingólfsson þannig í bókinni Kristján Davíðsson: „Dúkar hans stækka, pensildrættirnir verða brýnni, kraftmeiri, litirnir ríkulegri og formmyndun margræðari. Hughrif frá náttúrunni blandast æskuminningum frá Vestfjörðum, þar sem landslag er hrikalegra en annars staðar á landinu. Landslagið kveikir svo aftur minningar um hrikalegt fólk eða atburði sem tengjast því og ef til vill tónlistina í vindinum á hálfgleymdum stað og stund“ (bls. 18). Myndlist Kristjáns á sjöunda áratugnum lýsir Halldór Björn Runólfsson með þessum orðum í sýningarskrá árið 2007: „Frá þykkum og beindregnum pensilförum, eða mósaíklöguðum köflum eftir spaða, sem minna óneitanlega á tilhöggvið stuðlaberg eða hamarveggi, þróaðist mjúkt og leikandi pensilfar eftir því sem leið á sjöunda áratuginn. Við það dró smám saman úr þykkt áferðarinnar og meitluð ásýnd hennar lét undan síga fyrir bylgjandi jafngildum pensilstrokum. … Allan sjöunda áratuginn var hinn meitlaði stíll, sem áður var lýst, að gliðna rétt eins og meginlandsplötur og hleypa inn í glufur og sprungur hreinum lit, gjarnan bláum, en einnig rauðum og gulum“ (Halldór Björn Runólfsson: Kristján Davíðsson, bls. 24). Í Glæðum er mestur hluti flatarins tilbrigði um lífræn form, ekki ósvipuð þeim sem finna má í frjálslegustu landslagsmyndum Kjarvals, þar sem greina má atriði sem minna á hraun, grjót, grasbala, gilskorninga og ýmislegt foldarskart. Kristján hnykkir á þeim landslagsgjörningi með því að búa til eins konar sjóndeildarhring eða hórisont efst á myndfletinum. Um leið gerir hann hið gagnstæða, að opna myndina vinstra megin, þannig að þetta svokallaða landslag virðist hanga eins og í lausu lofti, og er því augljóslega tilbúningur mitt á milli hins hlutlæga og huglæga.