Gunn­laugur Blöndal

Stúlka með greiðu

Málverk

Breidd:

60 cm

Hæð:

74 cm

Flokkur:

Málverk

Ár:

1937

Í listasögu sinni segir Björn Th. Björnsson um Gunnlaug Blöndal: „Fyrir [honum] vakir alls ekki að túlka lífið, veruleikann. Hann notfærir sér aðeins svipmyndir hans sem rómantískt yrkiefni, smíðisefni fegurðar, sem á sér í raun og veru hljómgrunn á allt öðru sviði mannlífsins. ... Þar á ég ekki sízt við konumyndir hans, en margar þeirra eru óumdeilanleg snilldarverk, þrungnar rósemd og djúpu, ljóðrænu yndi“ (Björn Th. Björnsson: Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld I, bls. 188). Bókaútgáfan Helgafell lét litprenta myndina Stúlka með greiðu til sölu á sjötta áratug liðinnar aldar og varð hún þá landsþekkt um leið. Um myndina segir Æsa Sigurjónsdóttir í Íslenskri listasögu, öðru bindi: „Athyglisvert er að [listamaðurinn] víkur frá hefðbundnu, lóðréttu portrettformati og notar lárétt format til að komast nær myndefninu þannig að líkami stúlkunnar fylli út í flötinn. Með þessu sjónarhorni færir hann myndefnið inn í samtímann, þrengir rammann eins og ljósmyndari, stúlkan horfir niður, ljósið fellur á brjóstin“ (bls. 33). Björn Th. Björnsson lýsir myndinni á eftirfarandi hátt: „Þar er þrengt að myndefninu eins og frekast má; … vinstri höndin, sem heldur aftur um hnakkann, er skorin af myndfletinum, og eins hægri olnboginn þeirrar handar sem hún greiðir sér með. Alls ekkert aukaatriði er leitt inn í myndina, og jafnvel er fremur lýst blænum, sem yfir stúlkunni og athöfn hennar hvílir, en nokkrum einstökum atriðum í ásýnd hennar. Þar ríkir rósamur yndisþokki ungrar konu sem er í næði með sjálfri sér. … Í hörundið notar hann tvo andstæða lithópa, græna annarsvegar, en hlýja, gul- og rauðkynjaða hinsvegar. Til þess að halda þeim í föstum skefjum og binda hin brotnu pensilför í heil form, tvískiptir hann grunnlitnum, í dumbrauðan vinstra megin, en djúpgrænan til hægri. Þannig nær hann í senn fram hvíld skyldra lita og víxlverkun þeirra, þar sem andstæðurnar tengja þá saman, en lýsa þá og eggja um leið“ (Björn Th. Björnsson: Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld I, bls. 191).