Bertel Thor­valdsen

Krists­mynd

Breidd:

130 cm

Hæð:

200 cm

Flokkur:

Skúlptúr

Ár:

1961

Verkið er staðsett við Fossvogskirkju. Verkið er í eigu Kirkjugarða Reykjavíkur. Um 1821 var Bertel Thorvaldsen fenginn til þess að gera Kristsmynd úr marmara fyrir Frúarkirkjuna í Kaupmannahöfn. Hann stóð þá á hátindi frægðar sinnar, hafði gert garðinn frægan í Róm, einkum fyrir verk sín úr grísku og rómversku goðafræðinni. Þegar Thorvaldsen kom ungur til Rómar um aldamótin 1800 fékk hann fyrst vinnu við að gera við grískar og rómverskar styttur sem fundist höfðu í fornum rústum. Til er frásaga af því þegar Thorvaldsen var að vinna þessa Kristsmynd. Vinum hans þótti hann tæplega nógu trúaður til þess að fást við slíkt verkefni. Thorvaldsen átti svar við því: „Ég trúi ekki heldur á grísku guðina, en þar þykir mönnum mér hafa tekist vel upp.“ Hann er sagður hafa verið lengi að að glíma við þetta verkefni. „Einfaldleikinn verður að ráða,“ á hann að hafa sagt við vin sinn, „því Kristur er hafinn yfir árþúsundin.“ Svo staðnæmdist Thorvaldsen fyrir framan þennan vin sinn, lyfti örmunum hægt, opnaði faðminn og spurði: „Getur hreyfing verið einfaldari en þessi, og felur hún ekki í sér kærleika hans, og umhyggju fyrir mönnunum? Þannig finnst mér Kristur vera.“ Afsteypa úr eir af Kristslíkneski Bertels Thorvaldsens stendur utan við dyr Fossvogskirkju. Afsteypan var gjöf Bálfararfélagsins, afhjúpuð 27. september 1961.