Ingi Hrafn Hauksson

Fallandi gengi

Breidd:

400 cm

Hæð:

200 cm

Flokkur:

Skúlptúr

Ár:

1976

Verkið er staðsett við Selásbraut í Árbæjarhverfi. Ingi Hrafn lauk við verkið árið 1974 eftir að hafa gengið með hugmyndina í kollinum í nokkur ár. Fallandi gengi var fyrst sýnt á útisýningu í Austurstræti í Reykjavík en hún var skipulögð af Myndhöggvarafélaginu í tilefni Listahátíðar í Reykjavík 1976. Verkið, sem fyrst bar heitið „Gengissig“, var keypt af Reykjavíkurborg það ár og komið fyrir á flötinni í Árbænum árið 1977. Á þeim tíma sem verkið var gert var gríðarleg verðbólga og sveiflur á gengi krónunnar, enda sagði listamaðurinn eftirfarandi um nafngift verksins: „Mér fannst það liggja beint við, því svo lengi sem ég man hefur gengið verið annað hvort að síga eða falla á Íslandi.“ Stallurinn undir verkið kom síðar, eða árið 1982, en vildi þá ekki betur til en svo að höggmyndin féll út krana og laskaðist og þótti verkið þá bera nafn með rentu. Gert var við verkið og því komið klakklaust á stallinn nokkru síðar.