Bertel Thor­valdsen

Sjálfs­mynd Thor­vald­sens með Vonar­gyðj­una

Breidd:

90 cm

Hæð:

250 cm

Flokkur:

Skúlptúr

Ár:

1839

Verkið er staðsett í Hljómskálagarðinum. Bertel Thorvaldsen gerði sjálfsmynd árið 1839 þar sem hann hallar sér upp að höggmynd sinni „Voninni“ frá 1818. Bronsafsteypa af styttunni var gjöf borgarstjórnar Kaupmannahafnar til íslensku þjóðarinnar í tilefni þúsund ára byggðar í landinu árið 1874 og var sett upp á Austurvelli árið eftir við hátíðlega athöfn. Sjálfsmynd Thorvaldsens er fyrsta útilistaverk í eigu Íslendinga. Thorvaldsen velur að sýna sig að störfum, þ.e. að vinnu við Vonargyðjuna og lýsir myndin stund milli stríða þar sem listamaðurinn tekur sér hvíld og hallar sér að styttu sinni. Hann hefur lagt niður verkfæri sín og um stundarsakir snúið sér frá Vonargyðjunni. Við vitum ekki hvert hann horfir en getum getið okkur til um það. Hann er einbeittur, nánast grimmilegur, tekur listina alvarlega og vinnur vísindalega.