Breidd:
250 cm
Hæð:
240 cm
Flokkur:
Skúlptúr
Ár:
1963
Verkið er staðsett við Hátún. Fuglinn Fönix skóp Ásmundur í Reykjavík árið 1961 og vann verkið í eir. Árið 1963 var myndin stækkuð og stendur sú mynd við Hátún í Reykjavík. Fuglinn Fönix er óhlutlægt verk þar sem formin hafa þó sterka samsvörun við anatómíu fugls. Formrænt er myndin afar einföld – aðeins þrjár samsettar þríhyrndar eirplötur, sem mynda búk, háls og höfuð, og síðan tveir fætur. Umhverfis fuglinn, formið, er síðan rissað með járnlínum, sem skilgreina rými eða svigrúm fuglsins auk þess sem þær má túlka sem vænghaf. Út frá breytilegu sjónarhorni áhorfandans öðlast fuglsformið og verkið allt óreglulega hreyfingu og dýnamík líkt og þegar fugl sest eða flýgur upp. Í þessu verki er holrýmið gerandinn og virkar sem hvati á hugarflug áhorfandans. Fönix er goðsögulegur fugl sem á rætur að rekja til Eþíópíu. Hann er öllum fuglum fegurri og langlífur með afbrigðum. Hann er þeim eiginleika gæddur að geta endurfæðst úr ösku sinni. Þegar dauðinn nálgast býr hann sér til hreiður úr ilmandi kvistum þar sem hann brennur upp í eigin hita. Táknræn merking fuglsins er því augljóslega endurfæðing og ódauðleiki. Í viðtali við dagblaðið Vísi 9. júní 1961 sagði Ásmundur: „Svo er eg byrjaður á nýrri mynd, sem á að verða bezta myndin mín eins og allar aðrar! Hún er af fuglinum Fönix, fugli ódauðleikans. Sagan um þann ágæta fugl hefur frá upphafi haft mikil áhrif á mig. Hún sýnir mannlega þrá til eilífs lífs. Þá þrá var aldrei hægt að drepa. Verður góð mynd skal eg segja þér. Vonandi ódauðleg eins og sagan.“