Stir­ling Calder, Alex­ander

Leifur heppni

Breidd:

140 cm

Hæð:

305 cm

Flokkur:

Skúlptúr

Ár:

1931

Verkið er staðsett á Skólavörðuholti. Eitt þekktasta kennileiti Reykjavíkur er vafalaust styttan af Leifi heppna sem stendur á Skólavörðuholtinu fyrir framan Hallgrímskirkju. Stöpullinn undir styttunni er úr graníti og samanstendur af 18 steinbjörgum sem vega alls hátt í fimmtíu tonn. Sjálf myndin af Leifi vegur hins vegar um eitt tonn. Styttan og stöpullinn mynda saman eina órofa heild og er stöpullinn hugsaður sem skipsstafn. Bandaríkjamenn gáfu Íslendingum styttuna í tilefni Alþingishátíðarinnar árið 1930. Árið áður var haldin samkeppni um gerð styttunnar þar sem Alexander Stirling Calder bar sigur úr býtum. Hann gerði bæði stöpulinn og styttuna. Það var svo 17. júlí árið 1931 sem þáverandi sendiherra Bandaríkjanna afhenti Íslendingum styttuna að gjöf. Geta má nærri að Íslendingum hafi þótt gjöfin góð enda hefur hún löngum verið talin mikilvæg viðurkenning bandarískra stjórnvalda á landafundum Leifs.