Breidd:
600 cm
Hæð:
400 cm
Flokkur:
Skúlptúr
Ár:
1944
Verkið er staðsett í höggmyndagarði við Ásmundarsafn. Helreiðina gerði Ásmundur í Reykjavík árið 1944. Var hún fyrst unnin í gifs og síðar í tré. Hún var stækkuð í steinsteypu í ágúst 1965. Myndin er í senn flókin og stórbrotin miðað við fyrri verk listamannsins, en þó byggð upp af miklu innra samræmi: Höfuð hestsins og maðurinn sveigjast hvor til sinnar hliðar og mynda þannig samhverfu jafnframt því sem framfætur hestsins ganga beint upp í háls hans. Maður og hestur virðast samgrónir í einfaldleik myndarinnar og gefur það henni sterkan heildarsvip. Ólíkt fyrri myndum listamannsins skynjar áhorfandinn í þessu verki dýnamík og úthverfa tjáningu: Hesturinn reisir makkann með opinn skolt og draugurinn með opinn munn og útglennt augu lyftir hendi sinni. Um Helreiðina sagði Ásmundur í samtali við Matthías Johannessen í Bókinni um Ásmund: „Þetta er draugurinn frá Hel, stríðsguðinn. Hann er auðvitað á hesti úr Hel. Þegar ég gerði fyrsti skissurnar að Helreiðinni, hafði ég þjóðsöguna um djáknann á Myrká í huga. En svo fannst mér ég verða að sleppa konunni og þá varð úr þessu Helreiðin, sótt í Eddu: Hel á allt. Allt er vígt dauðanum, blóm, jörð, menn. Dauðinn verður að vera óhugnanlegur. Við erum brennimerkt honum. Hann flæðir yfir allt, þyrmir engu. Helreiðin er gerð á stríðsárunum, þegar fólki var slátrað eins og skepnum. Þá tróðust margir undir tröllslegum hófum ófreskjunnar.“