Magnús Sigurð­ar­son, Ragnar Kjart­ansson

Trún­aður

Önnur verk

Flokkur:

Innsetning

Ár:

2004

Samstarfsverk listamannanna og vinanna Ragnars og Magnúsar samanstendur af ólíkum þáttum, ljósmyndum, myndbandi, samtali, pottaplöntum og tónlist. Þar má greina ýmis stef sem enduróma í síðari tíma verkum. Myndbandið sýnir listamennina í hlutverkum þjófanna tveggja sem krossfestir voru sitt hvorum megin við Krist (sjá má fætur hans dangla á milli þeirra). Þeir opna sig hvor fyrir öðrum í einlægu en nokkuð brokkgengu trúnaðarsamtali um lífið, listina og ástina. Hefðbundnar svart hvítar stúdíóljósmyndir sýna listamennina tvo nakta fyrir framan batiktjöld, í faðmlögum sem minna á klassísk máverk og skúlptúra. Tíu ferðageislaspilarar á víð og dreif um gólfið leika upptöku af tregafullum söng trúbadora. Við opnun sýningarinnar í Listasafni ASÍ á sínum tíma léku tónlistarmennirnir sama verk á staðnum. Ragnar og Magnús gerðu framhaldsverk árið 2007, Trúnaður II – Wounded Knee. Þá fór fram lifandi gjörningur – einlægt trúnaðarsamtal sem fyrr – en að þessu sinni voru listamennirnir í hlutverki dáta úr bandaríska hernum sem sátu við varðeld eftir frammistöðu sína í Wounded Knee fjöldamorðunum. Flytjendur / Performers: Benni Hemm Hemm, Helgi Svavar Helgason, Kjartan Sveinsson, Paul Lyndon, Siggi Ármann, Svanur Kristbergsson, Svavar Pétur Eysteinsson, Þorgeir Guðmundsson, Þorvaldur Gröndal, Þráinn Óskarsson