
Breidd:
300 cm
Hæð:
200 cm
Ár:
1988
Erró, sem mótaðist af kalda stríðinu, beinir gjarnan sjónum að hugmyndafræðilegum átökum samtímans. Í Kapteinn Ameríka má sjá slík átök milli afla með andstæða heimssýn. Verkið heitir eftir ofurhetjunni sem sköpuð var af Jack Kirby og Joe Simon árið 1940. Henni var ætlað að vera tákn bandarískra gilda, frelsis og lýðræðis, í baráttu gegn nasistum í síðari heimsstyrjöld og síðar við kommúnista í kalda stríðinu. Helsti andstæðingur hans, Rauða höfuðkúpan, þróaðist frá því að vera þýskur nasisti yfir í sovéskan njósnara. Verk Errós birtir baráttu góðs og ills, hann sækir myndefnið í tvíblaða opnu úr Captain America nr. 298 frá árinu 1984, þar sem Rauða höfuðkúpan hæðist að andstæðingi sínum. Á milli þeirra setur Erró inn lifandi þrívíða netbyggingu – „járnnet“ – sem afmyndar andlitin og dregur fram ofbeldi, ótta, árásargirni og óróleika.