Ásmundur Sveinsson

Trúar­brögðin

Þrívíð verk

Breidd:

114 cm

Hæð:

143 cm

Flokkur:

Skúlptúr

Ár:

1956

Listamaðurinn gerði höggmyndina Trúarbrögðin í Reykjavík árið 1956. Hún er unnin í járn, tré og kopar. Hún var stækkuð árið 1977 og sett upp á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi. Í samtali við Matthías Johannessen í Bókinni um Ásmund útskýrði listamaðurinn verk sitt og sagði: „Ég er að reyna að tengja saman nútíð og fortíð í einni mynd ... trúarbrögð feðra okkar og kristin viðhorf. ... Ég skal segja þér aðdragandann. Þegar norska listsýningin var opnuð hér, flutti Halvard Lange, utanríkisráðherra Norðmanna ræðu, þar sem hann sagði þessa setningu: „Það voru ekki mennirnir sem fundu Reykjavík heldur myndin.“ Þetta sló mig! Ég hafði aldrei hugsað um það, en samt stendur þetta í öllum kennslubókum í íslenzkri sögu. Það var myndin, öndvegissúlurnar, sem Ingólfur varpaði fyrir borð, sem fyrst nam land hér í Reykjavík. Þegar ég fór að hugsa um þetta, náði það æ sterkari tökum á mér, svo að ég gat ekki um annað hugsað. Ég varð heillaður af þeirri trúarsannfæringu sem að baki bjó. Og þegar ég sökkti mér niður í málið, fann ég að trú forfeðra okkar var sterk, sönn og óbilandi. Það er ekki lítið atriði að velja sér bólstað og ekki lítið traust sem guðunum var sýnt með því að láta þá velja sér stað í nýju landi. Þessi hugmynd hefur ekki látið mig í friði. Það gæti verið gaman að koma henni í efnið. Ef ég á að segja þér alveg eins og er, hafði ég hugsað mér að sleppa kristninni og yrkja aðeins um heiðna trú. Svo var það í haust, að ég sýndi reykvískum presti skissu af myndinni. Þá segir hann: „Geturðu ekki komið kristninni líka fyrir, með því að setja krossinn inn í myndina?“ Ég hugsaði mig svolítið um, sagði síðan: „Má ég gera krossinn afstrakt?“ „Já-já, auðvitað,“ svaraði hann. Og það varð úr.“