Breidd:
130 cm
Hæð:
162 cm
Flokkur:
Málverk
Ár:
1995
Erró notar ekki tölvur og einungis er hægt að ná í hann í gegnum hefðbundna símalínu – áður fyrr jafnvel með faxi. Tækninotkun hans er í lágmarki og þótt hann hafi stundum notað myndir af netinu hefur hann aldrei reitt sig á vefinn til að finna eða skapa myndefni. Í staðinn vinnur hann með prentaðar myndir sem aðrir hafa útvegað. Erró fjallar sjaldan um þróun upplýsingatækni í verkum sínum en verkið Tölvusjúklingurinn er sjaldgæf undantekning. Málverkið er frá 1995 og byggir á vatnslitamynd sem aftur var gerð eftir klippimynd frá 1993, á tímabili þegar tölvur og internetið voru í örri þróun. Eftir á að hyggja má túlka verkið sem forspá um sívaxandi innlimun samfélagsins í stafrænan veruleika, langt áður en hann varð allsráðandi. Í verkinu speglar Erró firringu mannsins í gegnum tækni með skoplegri myndmálstúlkun sem sækir innblástur í teiknimyndamenningu. Við sjáum jakkaklæddan mann fullkomlega upptekinn af tölvunni sinni. Á skrifborðinu liggur mynd af honum sjálfum, sem undirstrikar þema endurtekningar og stafrænnar fjötrunar. Fyrir ofan hann trónir skelfileg vera, klofin í tvær andstæður – annars vegar kvíða, hins vegar árásargirni. Er þessi ógæfulega vera ytri ógn sem maðurinn tekur ekki eftir í tölvufíkn sinni, eða er hann sjálfur höfundur eigin martraðar?