Jóhannes S. Kjarval

Land og loft

Breidd:

110 cm

Hæð:

174 cm

Flokkur:

Málverk

Ár:

1965

Abstrakt verk í kúbískum anda voru hluti af fjölbreytilegri flóru verka Kjarvals allt frá þriðja áratugnum og hugsanlega fyrr, og þessi gerð verka skaut alltaf upp kollinum á ferli hans með hléum. Formgerð verkanna er að jafnaði tilbrigði við sama stefið, tiglar og ferningar í flatarkenndu mynstri, stundum endurómur af fjöllum við ystu sjónarrönd. Meðal verka Kjarvals frá sjöunda áratugnum eru stórar og metnaðarfullar abstraktmyndir svo sem verkið Land og loft. Það er ólíkt fyrri abstraktverkum hans á þann hátt að myndrýmið býr yfir dýpt. Hrynjandi verksins næst fram með því að spila á andstæður léttra og ljósra og dökkra og þungra lita, en einnig er spenna á milli lítilla einfaldra forma og stórra samsettra forma. Þetta flókna samspil forma, lita og lóðréttra og láréttra lína býr samtímis yfir hreyfingu og jafnvægi. Þó svo að hann hafi í þessum verki rofið bein tengsl við hinn hlutlæga veruleika er náttúran þar enn til staðar eins og endurminning eða undirtónn að baki lita og forma.