Breidd:
160 cm
Hæð:
100 cm
Flokkur:
Málverk
Ár:
1967
Þann 17. janúar 1968 var opnuð sýning í Blumenthal-Mommaton galleríinu í París þar sem fimmtán listmálarar tóku þátt með því að endurtúlka sömu ljósmyndina. Myndin, sem tekin var af Marc Riboud (1923–2016), einum þekktasta Magnum-ljósmyndara Frakka, sýndi fólk í sumarleyfi njóta rólegheita við sölubás á strönd. Erró hélt þremur sólbekkjum í forgrunni verksins, en umbreytti annars saklausri senu í átakanlega ofbeldisfulla mynd sem hann nefndi Frí í Ísrael. Þar má sjá kunnuglegar persónur eins og Lenín, fyrrum leiðtoga Sovétríkjanna, og Lyndon B. Johnson, forseta Bandaríkjanna, ásamt kvenpersónu úr verki Picassos og ónafngreindum fígúrum sem tákna ótta, þjáningu, veikindi og dauða. Í bakgrunni bætist við ögrandi satíra í formi Little Annie Fanny, glæsilegrar ljóshærðar teiknimyndapersónu sem var sköpuð af Harvey Kurtzman og Will Elder. Ævintýri hennar, sem birtust í tímaritinu Playboy, voru ádeila á bandarískt samfélag. Verkið Frí í Ísrael verður að skoða í samhengi við alþjóðlega pólitíska stöðu þess tíma, sérstaklega við átök á milli araba og Ísraela – einkum sex daga stríðið sem háð var í júní 1967 milli Ísraels annars vegar og arabaríkjanna Egyptalands, Sýrlands og Jórdaníu hins vegar. En átökin náðu langt út fyrir Mið-Austurlönd. Ísrael varð leikvöllur kalda stríðsins, þar sem bæði Sovétríkin og Bandaríkin höfðu mikilvæg hernaðarleg og pólitísk hagsmunatengsl.