Breidd:
91 cm
Hæð:
130 cm
Flokkur:
Skúlptúr
Ár:
1952
Myndin Davíð og Golíat var gerð í Reykjavík á árunum 1952–54. Hún er unnin í tré og sýnir átök Davíðs og Golíats. Myndin sýnir tvo stílfærða einstaklinga. Verkið er í tveimur hlutum. Annars vegar lóðrétt og afgerandi form, sem tákna á Golíat, og hins vegar mjúkt skálínuform sem stendur fyrir Davíð. Myndin er tengd saman með snærinu sem þeytir völunni. Þó að við sjáum hér Davíð og Golíat hefur listamaðurinn fullkomlega umbreytt þessum tveimur einstaklingum. Hér er fyrst og fremst verið að nýta rýmið sem svigrúm til hreyfingar. Atburðurinn er það sem skiptir máli. Augu, nef og munnur eru aðeins til að gefa til kynna að hér sé um persónur að ræða. Um Davíð og Golíat segir Björn Th. Björnsson í bókinni Myndhöggvarinn Ásmundur Sveinsson: „Eina af nýjustu myndum sínum kallar Ásmundur Davíð og Golíat, og er það stærsta verkið sem hann hefur til þessa gert í tré. Það er tvístæða, eins og svo margar af síðari myndum Ásmundar: þunglamalegur þurs og mjúkleikinn sveinn, sem bregður slöngu sinni í ennisstað risanum. Þrátt fyrir nafnið er þetta sízt af öllu biblíumynd. Það er formtúlkun þeirrar glímu sem lítilmagninn heyr við ofureflið og á ráðsnilld sína og vit eitt að vopni. Raunar veit ég að Ásmundur hefur hér í huga það sem okkur er öllum nærtækast. Eins og Davíð gekk óbrynjaður móti Fílistanum með staf sinn og fimm hála steina í smalatösku sinni, þannig stendur og Ísland andspænis brynvæddum tröllum veraldar með ekkert nema list sína og tungu að hlíf.“