Haraldur Jónsson

U M M Y N D A N I R

Flokkur:

Fjöltækni

Ár:

2023

U M M Y N D A N I R var sýnt á um 500 stafrænum flötum Billboard um allt höfuðborgarsvæðið dagana 1.–3. janúar 2024. Verkefnið nefnist Auglýsingahlé og er unnið í samstarfi Billboard, Y gallery og Listasafns Reykjavíkur. Verkið hverfist um ummyndanir fyrirbæra sem líða síkvikar um loftið í tímaleysi áramótanna. Útlínur, afsteypur og endurvarp kunnuglegra hluta úr neysluheimum blandast og skarast við óræð tilbrigði tíðarandans. Hver syrpa framkallar róf möguleika í millibilsástandi þegar heimurinn er tímabundið opinn í báða enda. U M M Y N D A N I R er stefnumót sem örva skynjun vegfarenda, bjóða í ferðalag, kveikja hughrif og tengingar á leið hvers og eins út úr fortíðinni og inn í ókunna framtíð. Það er skuggsjá sem birtir samslátt og núning mynda í fjölbreyttu svæðanuddi við sjóntaugarnar. Það er ofið úr brotakenndum skilaboðum, hnitum, hugljómunum og óvæntum tilboðum úr undirmeðvitundinni.