Hörður Ágústsson

Án titils

Málverk

Breidd:

72 cm

Hæð:

121 cm

Flokkur:

Málverk

Ár:

1978

Á sjötta og sjöunda áratug liðinnar aldar hélt Hörður Ágústsson fjölmargar sýningar þar sem hann tefldi bæði fram málverkum og teikningum í harðsoðnum strangflatastíl og lýrískum stemmum í anda ljóðrænnar abstraktlistar. Í þessum vinnubrögðum kristölluðust viðhorf fræðimannsins í myndlistarmanninum Herði, löngunin til að kanna til hlítar endimörk tveggja ólíkra en þó samslunginna kenninga. Í ljósi sýningar sem Hörður hélt í Norræna húsinu árið 1975, þar sem sjá mátti myndröð með trúarlegu ívafi (Myndflokkur um mannsson), svo og yfirlýstum áhuga hans á verkum hins andlega þenkjandi listamanns, Barnetts Newman, má álykta að límbandaverkin sem hann sýndi árið 1976 séu hvorki hrein formfræði né sjónerting (op art) heldur tilvistarlegar hugleiðingar um það „sem hvorki verður séð né þreifað á“ – sjálfan guðdóminn. Verkið sem hér um ræðir, Án titils kallar sérstaklega á túlkun af þessu tagi. Í fyrsta lagi er það „triptýk“ eða myndþrenna, og þar með endurspeglun heilagrar þrenningar. Í öðru lagi er fjólublái liturinn ríkjandi í miðeiningunni, en hann er helgastur allra lita og einkunn æðstu kirkjuhöfðingja. Í þriðja lagi má finna samræmi milli fjölda láréttra eininga í hverri mynd og þeirra táknmerkinga sem bæði gyðingdómur og kristni lögðu í ákveðnar tölur. Einnig má nefna að litróf í ytri einingunum tveimur er annars vegar heitt, hins vegar kalt. Og hið lóðrétta form sem gengur í gegnum einingarnar þrjár er af mörgum talið ígildi hinnar uppréttu manneskju.