Ásmundur Sveinsson

Björg C. Þorláksson

Breidd:

20 cm

Hæð:

50 cm

Flokkur:

Skúlptúr

Ár:

1928/2001

Verkið er staðsett við Háskóla Íslands. Minnisvarðinn um Björgu C. Þorláksson (1887-1934) er tilkominn að frumkvæði Félags íslenskra háskólakvenna sem vildu halda í heiðri minningu hennar. Safnað var fyrir málmafsteypu af gifsbrjóstmynd af Björgu eftir Ásmund Sveinsson. Var hún steypt í brons árið 2001 og reist ári síðar á stöpli við Odda, byggingu félagsvísinda við Háskóla Íslands. Björg var hámenntuð, nam við Sorbonne-háskóla í París og var fyrst íslenskra kvenna til að ljúka doktorsprófi. Ritgerð hennar við doktorsvörnina 17. júní 1926 var á sviði heimspeki. Hún fjallar um lífeðlisfræðilegan grundvöll þriggja hvata og markmið hennar er að gera grein fyrir samþróun líkama og sálar. Björg var þeirrar skoðunar að til að skilja þróun mannsandans væri nauðsynlegt að skilja þróun hins lifandi efnis sem byggir mannslíkamann. Viðfangsefni hennar er hið flókna samspil hugsunar, sálarlífs og líkama sem enn er ekki kannað til fullnustu. Þótt ritgerðin sé skilgreind sem doktorsritgerð í heimspeki er hún fjölfræðileg þar sem auk heimspeki koma við sögu sálarfræði, lífeðlisfræði og næringarfræði. Á stöplinum stendur nafn Bjargar og doktorsgráðan við Sorbonne ásamt setningunni: „Maður, lærðu að skapa sjálfan þig.“