
Fyrstu dagana í janúar 2026 verður Auglýsingahlé á yfir 500 stafrænum flötum Billboard um allt höfuðborgarsvæðið.
Þessi tími verður helgaður sýningu á nýju verki eftir Þórdísi Erlu Zoëga sem valin var úr stórum hópi umsækjenda.
Billboard, sem rekur auglýsingaskjái í strætóskýlum og víða á höfuðborgarsvæðinu, efndi í haust til opinnar samkeppni um myndlistarverk í almenningsrými í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og Y gallery. Valnefnd valdi verk eftir Þórdísi Erlu Zoëga úr stórum hópi umsækjenda.
Verk Þórdísar ,,Sólarhringur” hvetur til nýrrar hugsunar um samband manns, tækni og náttúru. Það leggur til að skjáir í borgarrými breytist með birtu dagsins og taki mið af litbrigðum sólarljóssins og áhrifum þess á himinhvolfið. Þannig verður stafræni skjárinn að sólarklukku sem sýnir takt lífsins, þar sem líftími frumunnar fylgir ljósaskiptum sólarhringsins í rauntíma.
Þórdís Erla Zoëga (f.1988) hefur sýnt verk sín víða. Á Íslandi hefur hún sýnt verk sín meðal annars í Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Íslands, Listahátíð í Reykjavík og átt í samstarfi við BIOEFFECT, Hilton hótel, Íslenska dansflokkinn og Bláa lónið, svo eitthvað sé nefnt. Hún hefur nýlega fengið þrjú stór opinber listaverkefni. Á Íslandi verður verkið Upphaf, ný varanleg innsetning sett upp við inngang nýja Landspítalans og einnig verkið Flæði við 10 innganga Heklureits, nýrrar byggingarsamstæðu í miðbæ Reykjavíkur. Meðal annarra nýlegra verkefna sem hún hefur unnið að eru hönnun á klæðningu 40 metra hás vatnstanks í Helsinki fyrir finnska orkufyrirtækið FORTUM.
Reikna má með að yfir 80% höfuðborgarbúa muni sjá verk Þórdísar dag hvern í byrjun árs 2026. Verkefnið er frábær vettvangur fyrir myndlist í almenningsrými og er því ætlað að lýsa upp skammdegið og gefa borgarbúum tækifæri á að njóta listar um alla borgina. Þeir myndlistarmenn sem áður hafa tekið þátt í verkefninu eru Hrafnkell Sigurðsson, Sigurður Ámundason, Haraldur Jónsson og Roni Horn. Aðstandendur verkefnisins eru Billboard ásamt Listasafni Reykjavíkur og Y galleríi.