Saga Kjar­vals­staða

Kjarvalsstaðir

Kjarvalsstaðir voru teknir í notkun árið 1973 og er fyrsta byggingin hérlendis sem hönnuð er sérstaklega fyrir myndlist.  Á Kjarvalsstöðum eru reglulega sýningar á verkum Jóhannesar S. Kjarvals (1885 -1972) enda skipar hann sérstakan sess í íslenskri menningar- og listasögu sem einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar fyrr og síðar. 

Þar eru jafnframt sýningar á málverkum og skúlptúrum eftir nafnkunna innlenda og erlenda meistara nútímalistar.  Gluggar hússins ná frá gólfi og upp í loft svo vel sést yfir Klambratún sem var sérstaklega hannað og skipulagt sem hluti af listrænni menningu Reykjavíkurborgar. 

Kjarvalsstaðir eru staðsettir á Klambratúni, einu fárra útivistarsvæða í Reykjavík sem hannað hefur verið og skipulagt sem hluti af listrænni menningu borgar. Bygginguna teiknaði Hannes Kr. Davíðsson og var hún vígð árið 1973. Á Kjarvalsstöðum eru ávallt til sýnis verk úr safneign listmálarans Kjarvals sem ánafnaði Reykjavíkurborg stórt safn listaverka sinna og persónulegra muna, en auk þess eru þar settar upp sýningar á málverkum, höggmyndalist og byggingarlist viðurkenndra listamanna og arkitekta. 

Maí 1973, Kjarvalsstaðir við Klambratún. Skúlptúr eftir Jóhann Eyfells. Ljósmyndari: Friðþjófur Helgasson.
Mars 1973, við opnun sýningarhússins við Miklubraut. Birgir Ísleifur Gunnarsson borgarstjóri, Kristján Eldjárn forseti, Halldóra Eldjárn forsetafrú og fjölmenni fyrir utan annan sýningarsalinn. Ljósmyndari: Vísir

Kjarvalsstaðir eru fyrsta byggingin sem hönnuð er sérstaklega og byggð til almennra myndlistarsýninga á Íslandi.

Árið 1964 ákvað borgarráð Reykjavíkur að mótaður skyldi lystigarður í borginni með höggmynd af skáldinu Einari Benediktssyni í tilefni 100 ára árstíðar hans og í kjölfar þess var tekin ákvörðun um að reisa í garðinum listasafn með veitingasölu til heiðurs listmálaranum Jóhannesi Sveinssyni Kjarval sem varð áttræður ári seinna.

Kjarval tók fyrstu skóflustunguna að Kjarvalsstöðum á 180 ára afmælisári Reykjavíkurborgar í ágúst 1966, en lést ári áður en húsið var tekið formlega í notkun árið 1973. Það er afar vandað að allri gerð og fyrir tilkomu ráðhúss Reykjavíkur voru Kjarvalsstaðir notaðir undir veigameiri móttökur á vegum Reykjavíkurborgar. 

Byggingin

Kjarvalsstaðir eru á Klambratúni þar sem mætast Hlíðar, Rauðará og Norðurmýri – þrjú þéttbyggð, lágreist og heilsteypt íbúðarhverfi frá miðbiki 20. aldarinnar þegar Reykjavík var í örum vexti. Staðsetning Kjarvalsstaða yst til norðurs á túninu tekur mið af heildarmynd garðs og byggingar, þar sem byggingin ber yfirbragð fínlegs listaskála. Skálinn er byggður upp af tveimur álmum sem tengjast um húsagarð með grannri miðálmu. Hann er tiltölulega lokaður til norðurs að götunni en opnast mót suðri að sólarbirtu og gróðursælum garðinum.

Hannes Kr. Davíðsson arkitekt hússins var við hönnun þess undir áhrifum af japönskum innblæstri í norrænan módernisma, þar sem áhersla var lögð á ómeðhöndluð náttúruefni bygginga ásamt léttleika og einföldun allra drátta.

Léttleika Kjarvalsstaða má lesa af burðarvirki hússins þar sem grannar súlur bera uppi lárétt koparklætt þakið. Þetta gefur svigrúm til frelsis í útfærslu veggja þar sem þeir gegna engu hlutverki í burði þaksins. 

Margvísleg smáatriði og frágangur undirstrika fínleika hússins, eins og láréttir gluggaborðar sem ber undir brún þaks efst á útveggjunum eða súlur sem standa skáhallt í gegnum loftglugga úr gleri inni í húsinu. Hannes Kr. vann gjarnan með nýjungar í notkun byggingarefna og á Kjarvalsstöðum má meðal annars sjá veggi úr ómeðhöndlaðri steypu, öðru nafni sjónsteypu, þar sem æðateikning mótatimbursins verður sýnileg í áferð veggjanna, ásamt útveggjaklæðningu í corten-stáli, þykkum stálplötum sem hafa verið látnar ryðga upp að ákveðnu marki. Þessi efnisnotkun ljáir steypunni efniskennda áferð og hlýleika, og gróft yfirborð ryðstálsins bregst við sterku sólarljósi eins og með sterkri glóð. 

Aðalinngangur safnsins er á norðurhlið þess frá rólegri götunni og er nokkuð falinn þar sem gengið er um lítinn forgarð inn í húsið. Þegar inn er komið opnast húsið hins vegar að garðinum þar sem stórir glerfletir ná frá gólfi til lofts á gangasvæði sem liggur á þrjá vegu að hellulagðri stétt. Hluti glersins er í raun opnanlegar rennihurðir eða flekar sem hægt er að ýta til hliðar þannig að mörk innra rýmis byggingarinnar og ytra rýmis stéttarinnar og garðsins fyrir utan leysast upp. 

Mars 1973, við opnun Kjarvalsstaða. Ljósmyndari: Vísir.

Viðmót

Innandyra er sömu áherslu að finna á náttúruleg byggingarefni og eiginleika þeirra til að laða fram látlaust og hlýlegt andrúm. Grófir veggir í sjónsteypu kveðast á við fínlegan ómálaðan harðvið í loftklæðningu og gluggaumgjörðum, og tvíbreiðar dyr að sýningarsölum eru klæddar ljósum striga.

Í miðálmunni þar sem veitingasalan er staðsett er loftið tekið niður að hluta, sem undirstrikar lárétta ásýnd byggingarinnar og rýmisins. Af hellum á gólfi ásamt skipan glugga og súlna má ráða kvarða hússins sem gengur upp í öllum einingum þess. Hellurnar á gólfinu eru úr íslensku grágrýti sem lagt er báðum megin glersins, innan sem utan og undirstrika samfellu garðs og byggingar. 

Sýningarsalirnir liggja í tveimur löngum álmum, Austursal og Vestursal, hvorum sínu megin við miðrýmið. Til að verja listmuni gegn beinu sólarljósi var loftakerfi hússins hannað sérstaklega þannig að náttúruleg dagsbirta haldist jöfn inni í sölunum – hvort heldur sem er við langan og háan sólargang sumars eða lága sólstöðu skammdegisins. Einnig er hægt að umbreyta sölunum með sérhönnuðu kerfi skilveggja sem festir eru í gólfið á einfaldan hátt.

Framan við salina eru gangasvæðin eða Eystri og Vestri forsalir sem einnig eru nýttir til sýningahalds, sérstaklega á þrívíðum höggmyndum og öðrum munum þar sem ljós og skuggar fá að leika um allt eftir árstíðum og veðri. Með langhliðum forsalanna standa grannar burðarsúlur úr steinsteypu í reglulegum takti af gólfinu skáhallt upp úr loftgluggum og bera þak sýningarsalanna á áreynslulausan hátt. 

Loftmynd frá Kjarvalsstöðum. Júní 1973. Ljósmyndari: Vísir.

Túnið

Lystigarðurinn Klambratún er mótaður fyrir útivist borgarbúa sumar sem vetur og byggist upp af opnum svæðum ásamt minni og skjólsælum rýmum til leikja og listar. Í norðaustur horni garðsins er manngerð brekka sem hentar fyrir sleðaleiki barna eða sólböð en stóra flötin sunnan við Kjarvalsstaði býður upp á fjöldasamkomur eins og útitónleika eða viðburði tengda hátíðum. Skjólbelti hávaxinna trjáa skýlir fyrir þungri umferð af Miklubraut til suðurs, en að öðru leyti er hönnun garðsins samstilling mjúkra og geómetrískra forma. Garðurinn er mótaður um 1964 samkvæmt tillögum Reynis Vilhjálmssonar landslagsarkitekts. 

Arkitekt

Hannes Kr. Davíðsson arkitekt (1916-1995) lauk sveinsprófi í múrverki árið 1938, en hélt síðan til náms í byggingarlist við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn og lauk þaðan prófi sem arkitekt 1945. Heimkominn vann hann um skeið hjá Guðjóni Samúelssyni arkitekt og þáverandi húsameistara ríkisins, en stofnaði síðan eigin teiknistofu árið 1950. Hannes Kr. skipar sér í fremstu röð nýrra viðhorfa og hugmyndafræði eftirstríðsáranna á Íslandi, og gerði m.a. tilraunir með nýstárlega notkun steinsteypu ásamt léttum úthliðum bygginga úr gleri.

Helstu verk: Íbúðarhús Skaftahlíð 3 (1947). Hús Gunnars Gunnarssonar rithöfundar að Dyngjuvegi 8 (1949-50). Íbúðarhús við Akurgerði og Sogaveg (1951-52). Tilraunastöðin að Keldum, rannsóknar- og dýrahús (1946-89). Lyfjaverslanirnar Holtsapótek og Apótek Vesturbæjar (1955).Verslunarhús Liverpool Laugavegi (1960). Bjarnarneskirkja að Nesjum, Hornafirði (1956). 

Kjarval og Geir Hallgrímsson borgarstjóri ræðast við. Ljósmyndari: Pétur Thomsen
18. ágúst 1966, Jóhannes Kjarval tekur fyrstu skóflstunguna að nýju myndlistarhúsi á Klambratúni í Reykjavík við 180 ára afmæli Reykjavíkurborgar. Ljósmyndari: Pétur Thomsen

Listamaðurinn

Jóhannes Sveinsson Kjarval listmálari var uppi á árunum 1885-1972. Hann sótti námskeið í teikningu og málun hjá Þórarni og Ásgrími Jónssyni og fór til London árið 1911 og þaðan til Danmerkur þar sem hann hóf formlegt myndlistarnám í Konunglega listaháskólanum í Kaupmannahöfn og útskrifaðist þaðan árið 1917. Hann skipar sérstakan sess í íslenskri menningar- og listasögu sem einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar fyrr og síðar.

Í gegnum verk hans hafa Íslendingar lært að meta á nýjan hátt náttúru landsins, þjóðina og hinn óræða stað milli raunveruleika og handanheima. Kjarval ánafnaði Reykjavíkurborg stóran hluta listaverka sinna, málverka og teikninga auk persónulegra muna árið 1968. Var hluti gjafarinnar sýndur í fyrsta sinn við opnun Kjarvalsstaða árið 1973 og þar hafa ávallt síðan verið margvíslegar sýningar úr verkaeigninni. Safnið hefur vaxið jafnt og þétt með árunum. 

Ítarefni

Um listamanninn