Ásmundarsafn er helgað verkum myndhöggvarans Ásmundar Sveinssonar (1893-1982) og var safnið formlega opnað árið 1983. Safnið er til húsa í einstæðri byggingu sem var heimili og vinnustofa listamannsins.
Í Ásmundarsafni er ávallt sýning á verkum Ásmundar en hann ánafnaði Reykjavíkurborg stóru safni listaverka sinna auk byggingarinnar eftir sinn dag. Þá eru reglulega haldnar sýningar á verkum annarra listamanna í safninu sem hafa gjarnan vísun í list Ásmundar.
Ásmundur var einn af frumkvöðlum höggmyndalistar hér á landi og hannaði bygginguna að mestu leyti sjálfur á árunum 1942-1959. Hann byggði meðal annars bogalaga byggingu aftan við húsið sem var bæði hugsuð sem vinnustofa og sýningarsalur. Manfreð Vilhjálmsson arkitekt hannaði tengibygginguna sem tengir saman aðalhúsið og bogabygginguna. Formhugmyndir hússins eru sóttar til Miðjarðarhafsins, í kúluhús Mið-Austurlanda og píramída Egyptalands.
Í garðinum er að finna stækkanir og afsteypur af verkum Ásmundar, en hann kom mörgum þeirra þar fyrir sjálfur.
Húsið er byggt í þremur áföngum 1942, 1946 og 1955-59. Það er ekki hannað á hefðbundinn hátt heldur er byggingin sköpunarverk myndhöggvarans Ásmundar Sveinssonar sem fékk þó aðstoð Einars Sveinssonar arkitekts við frágang uppdrátta. Húsinu var breytt í sýningarrými árið 1982 og var Manfreð Vilhjálmsson arkitekt fenginn til að gera tengibyggingu á milli húshlutanna tveggja 1987-1991.
Í Ásmundarsafni eru ávallt sýningar á verkum listamannsins Ásmundar Sveinssonar sem ánafnaði Reykjavíkurborg stórt safn listaverka sinna auk byggingarinnar þar sem safnið er nú til húsa.
Ásmundarsafn er upprunalega byggt sem vinnustofa og heimili myndhöggvarans Ásmundar Sveinssonar og fjölskyldu hans að Sigtúni rétt vestur af Laugardal, þar sem Reykjavíkurborg úthlutaði honum lóð. Á þeim tíma var lítil byggð á þessum slóðum og enn starfrækt bóndabýli með tilheyrandi kvikfénaði og heyrækt í dalverpi Laugardalsins, en lóð Ásmundar var „skóglaus og nakin” eins og hann sjálfur komst að orði.
Hann hafði sterkar skoðanir á því hvernig móta ætti byggingar og byggð í samspili við staðhætti hvers lands og lagðist sem landnemi í að útfæra hugmyndir sínar í byggingu á lóðinni.
Árið 1942 byggði Ásmundur „Kúluna” svokallaða, ferningslaga íbúðarhús með hálfkúlulaga þakhæð undir vinnustofu. Byggingin er að forminu til innblásin af veraldlegri byggingarlist Grikkja og Tyrkja í því sem Ásmundi fannst sambærilega gróðursnauður landkostur við Miðjarðarhafið. Fjórum árum seinna eykur hann við vinnuaðstöðu sína og bætir mjórri álmu, „Pýramídunum”, þvert framan við húsið. Þar sækir hann form keilustúfa með skáhallandi veggjum, flötu þaki og miðjusettum inngangi með áberandi umgjörð í stórhýsi Egypta frá fornöld. Viðbygginguna mótar Ásmundur eins og þá fyrri í líkan úr leir og steypir seinna í gifs, en fær aðstoð Jónasar Sólmundssonar húsgagnasmiðs og Einars Pálssonar verkfræðings um uppdrætti og tæknileg atriði við byggingu hússins. Um áratug seinna byggir Ásmundur svo „Skemmuna”, skeifulaga sýningarsal og verkstæði aftan við fyrri bygginguna, undir þau verk sín sem ekki þola að vera úti, með hjálp góðvinar síns Einars Sveinssonar, arkitekts og þáverandi húsameistara ríkisins, um tæknileg atriði og verkteikningar.
Listamaðurinn vann sjálfur að byggingu húsanna – gróf grunn og byggði mót, hrærði steypu og beygði steypustyrktarjárn, og steypti svo með ærinni fyrirhöfn.
Garðinn umhverfis byggingarnar notaði hann einnig undir vinnu sína við stærri útilistaverk. Ásmundur ánafnaði Reykjavíkurborg verk sín og eftir andlát hans í lok ársins 1982 var ákveðið að búa verkeigninni sýningarstað í byggingu hans sjálfs. Af því tilefni var byggð tengibygging milli hússins og Skemmunnar.
Byggingar Ásmundarsafns eru athyglisverð tilraun listamanns til að þróa íslenskt byggingarlag húss sem henti hrjóstrugu skóglausu landi. Ásýnd bygginganna er skúlptúrel og líkust höggmynd í geómetrískum styrk sínum, þar sem sléttpússuð og hvítmáluð steinsteypan stendur einörð andspænis heiðbláum himni á góðviðrisdegi eða þéttum snjóstormi að vetri.
Ásýnd bygginganna er skúlptúrel og líkust höggmynd í geómetrískum styrk sínum, þar sem sléttpússuð og hvítmáluð steinsteypan stendur einörð andspænis heiðbláum himni á góðviðrisdegi eða þéttum snjóstormi að vetri.
Það er einnig áhugavert að lesa þróun byggingarhlutanna með breytilegum áherslum í ferli hans sjálfs sem listamanns. Fyrsti byggingarhlutinn, Kúlan, er ekki stefnubundin þar sem hún er formuð sem jafnhliða ferningur með hálfri kúlu ofan á. Annar hlutinn, Pýramídarnir, markar stefnu, ekki þó að forminu til heldur með staðsetningu sinni við eina hlið hússins, sem framhlið að götunni.
Ytra form eða rúmfang byggingarhlutanna er unnið sem massi eða gegnheilt efni sem hefur verið höggvið til og mótað líkt og myndhöggvari vinnur í marmarastein. Gluggarnir eru lítil op sem fremur er ætlað að veita birtu inn í húsið á úthugsaðan hátt eftir gangi sólarljóssins en að opna fyrir útsýni úr húsinu. Þungt formið og smá gluggaopin vekja hugrenningar um þúfu á víðavangi sem stendur af sér veður og vinda án þess að láta á sjá, og á sama tíma vinnur Ásmundur efnisþung útilistaverk sín eins og Veðurspámanninn, Vatnsberann og Þvottakonuna ásamt helstu lágmyndum sínum í opinberar byggingar. Þriðji byggingarhlutinn, Skemman, er hins vegar formaður í hálfhring sem snýr að hinum byggingunum en skýtur út kryppu til suðurs. Þakið er skáhallandi og glerjað til norðurs og burðarvirki byggingarinnar vel sýnilegt eins og rif í beinagrind. Yfirbragð Skemmunnar er mun léttara ásýndar en fyrri bygginganna tveggja og fer saman við nýja stefnu í listsköpun hans sem þróast úr þungum, massífum og steyptum höggmyndum í léttari og gegnsærri þrívíð verk úr tré og málmi sem daðra á allt annan hátt með rýmið umhverfis og á milli.
Á sama tíma er Ásmundur einnig að vinna með járn í myndir, handrið og veðurhana við nýbyggingar barnaskóla í borginni. Sjálfur segir hann í viðtali við Ríkisútvarpið: „Þarna erum við komnir að nokkru sem þarf að gera skil á í myndlistinni. Það er rúmið. Áður fyrr þegar ég var í steini þá var það volumið, massinn sem að vinnur á og á að vinna, en þegar maður kemur með járnið og beygir það allavegana þá er maður að handsama rúmið sem efnið getur tekið. Það er allt annað viðhorf.”
Viðmót
Andrýmið innandyra les sig náið með ólíkum hlutum byggingarinnar. Gengið er inn beint af götunni um dyraop sem meitlað hefur verið í framhlið pýramídahlutans, og þaðan upp nokkur þrep inn í ferningslaga byggingu Kúlunnar. Mjór stigi leiðir upp í sérkennilega hvelfinguna undir hálfhringsformuðu þakinu, og merkilegt er til þess að hugsa að hér hafi verið vinnustofa athafnasams listamanns. Þessi rými eru kunnugleg og minna á Pantheon í Róm, hofbyggingar Egyptalands, stjörnukíki Galileos – gullkorn úr vestrænni menningar- og byggingarlistarsögu, nema kvarðinn er annar. Hér er allt smátt í sniðum og þröngt, sem gerir hlutföll manns og byggingar sérkennileg og náin. Í skemmuhlutanum og tengibyggingunni hefur gólfið verið lagt ljósum marmaraflísum sem endurkasta birtunni frá glerþakinu að ofan í þrívíð verk Ásmundar sem ýmist standa á gólfinu eða hanga úr lofti. Andrúmsloftið er hvort tveggja í senn hikandi og flæðandi þar sem gangur dagsbirtunnar ræður för athyglinnar um rýmið.
Arkitektar
Einar Sveinsson (1906-1973) var fyrstur íslenskra arkitekta að sækja nám til Þýskalands þar sem hann viðaði meðal annars að sér þekkingu í skipulagsmálum. Hann útskrifaðist frá tækniháskólanum í Darmstadt árið 1932 og var heimkominn einn helsti boðberi fúnksjónalisma á Íslandi, en þróaði fljótlega með sér afar persónulegan stíl. Árið 1934 var hann ráðinn húsameistari Reykjavíkur og beitti sér jafnt við hönnun húsa, opinberra bygginga og skipulags með áherslu á listræna nálgun og nána samvinnu við listamenn í verkum sínum, meðal annarra Ásmund Sveinsson.
Eftir hann liggja margar af bestu byggingum sem reistar voru á 20. öldinni í Reykjavík. Helstu verk: Íbúðarhús að Freyjugötu 43 (1933). Verkstæðis- og geymsluhús fyrir Strætisvagna Rvk, Snorrabraut (1933). Íþróttahús Jóns Þorgeirssonar, Lindargötu (1935). Íbúðarhús Byggingarsamvinnufélagsins Félagsgarðs við Hávallagötu 3, 7, 9 og 13 (1935). Íbúðarhús Byggingarsamvinnufélags prentara við Hagamel 14-24 (1945-48). Skipulag borgarhverfanna Norðurmýrar (1934) og Mela (1936).
Tillögur um framtíðarskipulag miðbæjar Rvk. (1943). Barnaskólarnir Laugarnesskóli (1934-45), Melaskóli (1944-46), Langholtsskóli (1948-52), Laugalækjarskóli (1959-64) og Breiðagerðisskóli (1956-60). Íbúðarblokkir við Hringbraut (1942-44), Skúlagötu (1944-48), Lönguhlíð (1945-49), Kleppsveg (1956) og Sólheima (1957). Vigtarskýli við Reykjavíkurhöfn, núverandi Hamborgarabúlla Tómasar (1945). Heilsuverndarstöðin (1949-55). Borgarspítalinn (1950-73). Sundlaugar í Laugardal, áhorfendastúka (1954-64). Höggmyndasafn Ásmundar Sveinssonar við Sigtún, bogaskemman (1955-59), Hafnarbúðir (1958-62). Manfreð Vilhjálmsson arkitekt (1928-) útskrifaðist sem arkitekt frá Chalmers Tekniska Högskola í Gautaborg árið 1954. Hann stofnaði eigin arkitektastofu árið 1960 sem hann hefur rekið á köflum í samstarfi við aðra. Manfreð var formaður Arkitektafélags Íslands frá 1965 til 67. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga svo sem heiðursverðlaun menningarverðlauna DV og var sæmdur Riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 1996. Helstu verk: Bensínstöðvar Nestis í Fossvogi og við Elliðaár (1955-57). Íbúðarhús að Mávanesi 4 (1964), Barðavogi 13 (1967) og Blikanesi 21 (1967). Skólabyggingin í Skálholti (1971). Þjóðarbókhlaðan, með Þorvaldi S. Þorvaldssyni (1972-94). Þjónustubygging við tjaldstæðið í Laugardal (1985-89). Endurhönnun og stækkun höggmyndagarðsins umhverfis Ásmundarsafn er samkvæmt tillögum Kolbrúnar Þóru Oddsdóttur landslagsarkitekts frá 1994 til 2000.
Listamaður
Ásmundur Sveinsson myndhöggvari (1893-1982) er menntaður í þeirri grein sem líklegast er náskyldust byggingarlistinni. Hann nam tréútskurð, höggmyndagerð og lágmyndagerð til húsaskreytinga, meðal annars hjá Ríkarði Jónssyni og við Sænsku listaakademíuna, og vann jöfnum höndum að listaverkum sínum sem listskreytingum húsa, auk þess að móta í tvígang eigin byggingar undir vinnustofu sína og heimili. Ásmundur var einn af frumkvöðlum íslenskrar höggmyndalistar og var kallaður alþýðuskáld í myndlist. Hann ánafnaði Reykjavíkurborg verk sín ásamt heimili og vinnustofu að Sigtúni við andlát sitt, og var það síðan endurgert og opnað fyrir sýningahald undir nafninu Ásmundarsafn. Skúlptúrar Ásmundar eru staðsettir víða um borgina, en í garðinum við safnið er einnig að finna mörg verka hans.
Um listamanninn