Útil­ista­verk í Vest­urvin 2025

Verkið Rif eftir Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur er vinningstillagan

Haustið 2024 var myndlistarmönnum boðið að taka þátt í forvali að lokaðri samkeppni um listaverk í almannarými í Vesturvin á Héðinsreit í Vesturbæ Reykjavíkur. Reykjavíkurborg og lóðarhafar sameinast um listsköpun á svæðinu til að auka gæði og gott umhverfi í borginni.

Forvalsnefnd sem skipuð var fulltrúum lóðarhafa – Festir ehf, Listasafns Reykjavíkur og SÍM, valdi þrjá myndlistarmenn úr innsendum umsóknum til þátttöku í seinni hluta samkeppninnar. Anna Júlía Friðbjörnsdóttir, Elín Hansdóttir og Finnur Arnar Arnarson voru valin til þess að vinna tillögur að verki. Við val á listaverki skal metið á hvern hátt verkið auðgar mannlíf í Vesturvin, fegrar eða virkjar vannýtt svæði og skapar spennandi umhverfi. Niðurstaða dómnefndar liggur nú fyrir og hefur hún valið verk Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur sem vinningstillöguna.

Skissa af tillögunni

Í umsögn dómnefndar segir: ,,Listaverk Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur, Rif, er skúlptúr sem stendur á hringlaga undirstöðu, bronsafsteypa af rifbeini hvals á steyptri terrazzo skífu. Verkið er einnig gagnvirkur áttaviti þar sem höfuðáttirnar eru inngreyptar í skífuna og beininu má snúa þar sem það er fest á snúningslegu. Verkið tekur þannig mið af umhverfi sínu með vísunum í lífríki hafsins, siglingafræði og skipasmíði. Verkið er jafnframt þátttökuverk þar sem gestir og gangandi í inngarðinum í Vesturvin geta snúið beininu og leikið sér með verkið. Gæði verksins felast í einfaldleika þess en jafnframt djúpum vísunum til umhverfisins og náttúrunnar. Hvalbeinið sem unnið er með er úr Íslandssléttbak sem er tegund í útrýmingarhættu. Verkið verður sýnilegt öllum sem eiga leið um garðinn, sem er almenningsrými, og getur vakið áhorfendur til umhugsunar og orðið kennileiti og áhugavert uppbrot í umhverfinu í Vesturvin. Litir terrazzo undirstöðunnar munu jafnframt setja svip á svæðið og vera svipmiklir úr íbúðunum í kring. Verkið er jafnframt einkennandi fyrir feril Önnu Júlíu og áhugaverður liður í þróun og framvindu hennar listsköpunar.“

Um listamanninn: Anna Júlía Friðbjörnsdóttir (f. 1973) býr og starfar í Reykjavík. Hún vinnur í ýmsa miðla í verkum sem taka mið af samtíma og sögulegum málefnum. Verk hennar eru tilraunakennd, einkum í formi skúlptúra og innsetninga þar sem umbreyting efna, kerfa og miðlunar eru skoðuð með fjölbreyttum hætti. Framkvæmdir við uppsetningu verksins Rif í Vesturvin hefjast vorið 2025.