Barnamenningarhátíð í Reykjavík fer fram dagana 8.-13. apríl.
Hátíðin fer fram um alla borg og býður upp á stórar og smáar sýningar og viðburði sem unnir eru fyrir börn eða með börnum. Börn sýna verkin sín á virtum menningarstofnunum og taka að miklu leyti yfir menningarlíf borgarinnar þessa sex daga sem hátíðin stendur yfir. Frítt er inn á alla viðburði.
Dagskrá Barnamenningarhátíðar í Listasafni Reykjavíkur:
PÓKEMON VEISLA Í ÁSMUNDARSAFNI
Laugardaginn 12. apríl kl 13.00–15.00.
Vissir þú að það eru átta Pókestop á Ásmundarsafni? Komdu og veiddu Pókemona, hittu aðra spilara og skoraðu þá á hólm í pókemonbardaga! Sérfræðingar frá PókeHöllinni verða á staðnum og leiðbeina gestum um ævintýraheim Pókemon og kenna á spilin og tölvuleikinn. Til þess að taka þátt þurfa þátttakendur að koma með eigin snjalltæki með Pókemon Go leiknum í og/eða eigin Pókemon spil. Leikinn er hægt að hlaða niður ókeypis.
LEIKVALLASMIÐJA MEÐ ÞYKJÓ Í HAFNARHÚSI
Sunnudaginn 13. apríl kl. 14.00–16.00.
Ef þú fengir að hanna þitt eigið leiktæki fyrir róló, hvernig myndi það vera? Komdu á Leikvallasmiðju með ÞYKJÓ í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, á Barnamenningarhátíð!
Á Leikvallasmiðju er hægt að prófa stórhuga hugmyndir í fjölbreyttan efnivið með aðstoð hönnuða frá ÞYKJÓ. Smiðjan tengist verkefninu „Börnin að borðinu“ sem hlaut Hönnunarverðalun Íslands í flokknum Verk ársins 2024. Smiðjan er ætluð börnum frá 4 ára aldri í fylgd fullorðinna, aðgangur er ókeypis og öllum opinn.
ÞYKJÓ er þverfaglegt teymi hönnuða sem vinna fyrir börn og fjölskyldur þeirra á sviði upplifunarhönnunar, innsetninga og vöruhönnunar. Hönnunarstarf þeirra miðar að því að örva ímyndunarafl og sköpunarkraft barna í samstarfi við mennta- og menningarstofnanir. Á meðal nýlegra verkefna er innsetningin Hljóðhimnar í Hörpu, húsgagnalínurnar Kyrrðarrými og Hreiður og þátttökuverkefnið Gullplatan: Sendum tónlist út í geim! ÞYKJÓ hlaut Hönnunarverðlaunin árið 2024 og var einnig tilnefnt til sömu verðlauna 2021 og 2022. Eins hlaut teymið tilnefningu til alþjóðlegu YAM verðlaunanna.
HEIMA – MYNDLISTARSÝNING BARNA Í HAFNARHÚSI
Opnun fimmtudaginn 10. apríl kl 16.00.
Myndlistarnámskeiðið Heima er samstarfsverkefni Listasafns Reykjavíkur, Barnaheilla og Getu hjálparsamtaka. Á þessu sex vikna námskeiði hafa börn sem öll eiga það sameiginlegt að hafa fengið alþjóðlega vernd á Íslandi fengið að kynnast safneign og húsakosti Listasafns Reykjavíkur og unnið að eigin listsköpun undir handleiðslu reyndra listamanna. Á sýningunni í Hafnarhúsi á Barnamenningarhátíð gefst gestum kostur á að sjá afrakstur skapandi vinnu barnanna á námskeiðinu. Sýningin verður opin til 13. apríl.
PLAKATSÝNING HINSEGIN FÉLAGSMIÐSTÖÐVARINNAR Á KJARVALSSTÖÐUM
Þriðjudaginn 8. apríl 2025, 10:00 til 17:00
Mikilvægi þess að láta í sér heyra og berjast fyrir fegurðinni í fjölbreytileikanum hefur sjaldan verið meiri. Á þessari sýningu sýna krakkar sem sækja Hinsegin félagsmiðstöð Tjarnarinnar og S78 plaköt sem þau unnu í aðdraganda Barnamenningarhátíðar. Sýningin er opin alla hátíðina á opnunartíma Kjarvalsstaða.
ZINE SMIÐJA Á KJARVALSSTÖÐUM
Þriðjudaginn 8. apríl 2025, 10:00 til 17:00
Zine eru litlar bækur gerðar úr einu blaði sem auðvelt er að fjölfalda til þess að koma skoðunum sínum eða ástríðumálum á framfæri! Listakonurnar á sýningunni Ólgu notuðu ýmsar leiðir til þess að koma skoðunum sínum á framfæri og deila upplýsingum með hverri annarri á milli landa, meðal annars með bréfasendingum í bókaformi. Smiðjan er opin á opnunartíma safnsins með leiðbeiningum og öllum efnivið.