Fyssa 30 ára

Á sumardaginn fyrsta verður listaverkið Fyssa eftir Rúrí gangsett.

Verkið er staðsett í Grasagarðinum í Laugardal og var sett upp 1995. Grunnhugmynd verksins byggist á tengingu við náttúruöflin á Íslandi. Hægt er að líkja verkinu við jörð sem rifnar svo sprungur og gjár myndast.

Vatn safnast í gjár, frýs í glufum og klýfur í sundur björg. Listaverkið stendur að hluta til upp úr og að hluta til niður í jörðina og myndar gjá en einnig breiðir hluti þess úr sér á yfirborðinu. Vatnsrennslið er síbreytilegt líkt og í náttúrunni þannig að ásýnd verksins breytist stöðugt og hljóðið sem berst frá verkinu einnig vegna mismunandi þrýstings í vatnsbununum. Gjáin er þriggja metra djúp, úr henni rísa tveir steindrangar, tæplega sjö metra háir. Verkið er steypt í gegnlitaða steinsteypu, en annað aðalefni þess er vatn.

Myndlistamaðurinn Rúrí (f. 1951) er þekkt fyrir útilistaverk eins og Regnbogann við flugstöðina í Keflavík og Fyssu í Grasagarðinum í Reykjavík, einnig innsetningar eins og Glerregn sem sýnt var vorið 2001 í Listasafni Íslands og PARADÍS? – Hvenær? sem sýnt var á Kjarvalsstöðum fyrir nokkrum árum.

Verk hennar eru hugmyndafræðilegs eðlis, en eru sett fram með margvíslegri tækni, svo sem skúlptúr, innsetningar, margmiðlunarverk, gjörningar, bókverk, kvikmyndaverk, videoverk, ljósmyndaverk, hljóðverk, blönduð tækni tölvuvædd og gagnvirk verk.