Myrkir Músík­dagar: Ventus

til

Myrkir Músíkdagar: Ventus

Myrkir Músíkdagar: Ventus

Ásmundarsafn

til

Myrkir Músíkdagar í Ásmundarsafni.

Berglind María Tómasdóttir & Eyjólfur Eyjólfsson ásamt viibra - Ventus (2025)

Sumarið 2021 hófu þau Berglind María og Eyjólfur að kanna í sameiningu hljóðheim náttúruflauta smíðaðar úr hvönn og rabbabara, efnivið sem finna má víða í íslenskri náttúru yfir sumartímann. Ventus er afrakstur þessarar könnunar og skírskotar til latneska heitisins yfir vind, sem ekki eingöngu er innblástur að tónheimi verksins, heldur hefur hann átt þátt í að móta efnivið þeirra hljóðfæra sem leikið verður á.

Miðaverð við hurð: 1.500 kr.

Eyjólfur Eyjólfsson (MMus, MA) er flautuleikari, óperusöngvari, þjóðfræðingur og langspilssmiður. Meðfram söng- og smíðaverkefnum kemur hann reglulega fram með tónlistarhópunum Gadus Morhua og Voces Thules.

Berglind María Tómasdóttir hefur skipað sér í framvarðarsveit íslensks tónlistarfólks með tilraunagleði og forvitni að leiðarljósi. Hún er prófessor við Listaháskóla Íslands og hefur verið afar virk á tónlistarsenunni sem flytjandi og tónskáld, hérlendis og erlendis. Í verkum sínum leitast hún við að kanna ímyndir og erkitýpur sem og tónlist sem félagslegt fyrirbæri. Berglind hefur komið fram víðs vegar um heim, nú síðast í Ástralíu, Japan og Evrópu með Björk sem hluti af flautuseptettnum viibra. Árið 2022 hlaut plata hennar, Ethereality, Íslensku tónlistarverðlaunin í flokki sígildrar og samtímatónlistar. Verk Berglindar hafa meðal annars verið pöntuð og flutt á vegum Flautusamtaka Bandaríkjanna (The National Flute Association), Norrænna músíkdaga, Myrkra músíkdaga, Minnesotaháskóla í Duluth og Listahátíðar í Reykjavík. Berglind stundaði nám í flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og Konunglega danska konservatoríið og lauk doktorsprófi í flutningi samtímatónlistar frá Kaliforníuháskóla í San Diego árið 2013.

viibra var stofnaður haustið 2016 að tilstuðlan Bjarkar í tengslum við gerð plötu hennar Utopia. Á árunum 2018 til 2023 ferðaðist viibra með Björk víða um heim með hina margrómuðu sýningu Cornucopia. Meðlimir viibru eru virkir í íslensku tónlistarlífi sem flytjendur, tónskáld og kennarar.