YOKO ONO: EIN SAGA ENN...

YOKO ONO: EIN SAGA ENN...

YOKO ONO: EIN SAGA ENN...

Hafnarhús

-

Yoko Ono er leiðandi myndlistarmaður á sviði tilrauna og framúrstefnu. Hún er iðulega tengd við listhreyfingar sem mótuðust á sjöunda áratugnum, eins og konseptlist, gjörninga, flúxus og viðburðalist (ein fárra kvenna sem tók virkan þátt í þeim). Fyrst og fremst hefur hún þó verið frumkvöðull í að endurskoða listhugtakið, draga listaverkið sem hlut í efa og aukinheldur að brjóta niður hefðbundna múra milli ólíkra listgreina.

Með verkum sínum hefur Yoko Ono myndað nýstárleg tengsl við áhorfendur þar sem hún býður þeim að taka þátt í sköpun þeirra. Þá sameinar hún tvo heima – hinn austræn og hinn vestræna – sem virka eflandi og styrkjandi hvor annan í samfelldri nýsköpun.

Sýningunni YOKO ONO: EIN SAGA ENN... er ætlað að varpa ljósi á grunnþætti í yfirgripsmiklum og fjölbreyttum listaferli Yoko Ono – ferðalagið gegnum sjálfa hugmyndina um myndlist, með kraftmiklum félagslegum og pólitískum undirtóni. Annars vegar eru fyrirmælaverkin sem vekja spurningar um huglæg undirstöðuatriði að baki hverju listaverki og beina athyglinni að forgengileika þess um leið og þau afhelga listhlutinn, auk þess sem þátttöku áhorfenda er krafist til að verkin verði að veruleika. Hins vegar eru frásagnirnar sem tjá ljóðræna og gagnrýna sýn Yoko Ono.

Haustið 1955 skapaði Yoko Ono fyrsta fyrirmælaverk sitt sem hét Lighting Piece (Kveikiverk): „Kveiktu á eldspýtu og horfðu á hana brenna til enda.“ Það var þó ekki fyrr en 16.

júlí 1961 sem hún hélt sýningu á fyrirmælamálverkum sínum og -teikningum í AG galleríi George Maciunas í New York. Þar voru sýnd nokkur verk byggð á japanskri skrautritun en mesta athygli vöktu verk sem hengd voru á veggina eða lágu á gólfinu og áhorfendum bauðst að meðhöndla samkvæmt fyrirmælum listakonunnar. Þeim var falið að stíga á þau eða kveikja í, svo dæmi séu tekin um gjörðir sem ætlað var að fullkomna sköpunarverkið. Yoko Ono var sjálf í galleríinu, tók á móti gestum, sýndi þeim verkin og útskýrði eðli þeirra og hlutverk áhorfandans.

Innan við ári síðar, þann 24. maí 1962, hélt Yoko Ono tónleika og listasýningu í Sogetsu listamiðstöðinni í Tókýó þar sem hún sýndi eingöngu Fyrirmæli fyrir málverk sem hún hafði beðið þáverandi eiginmann sinn, tónskáldið Toshi Ichiyangi, að skrifa á hvítan pappír. Að miklu leyti var um að ræða sömu verk og sýnd höfðu verið í AG galleríinu en í þetta sinn var krafist huglægrar þátttöku áhorfenda fremur en líkamlegrar. Með þessari einföldun – einu af fyrstu dæmunum um konseptlist – dró Yoko Ono listhlutinn sem hið einstaka og upphafna í efa. Í staðinn fyrir að vinna með sjónræn tengsl efnis, miðils og aðferðar, líkt og þeir abstrakt listamenn sem réðu lögum og lofum í listaheiminum á þessum tíma, vann Yoko Ono út frá grunni hugmynda og hugtaka með því að nota aðeins orð sem eru í senn lýsing og skilgreining framkvæmdar en skilja um leið eftir töluvert rými, efnislega og/eða andlega, fyrir „flytjandann“. 

Að orð séu útgangspunktur setur verk Yoko Ono í samhengi við bókmenntir og þá sérstaklega ljóð. Þá hafa margir fræðimenn réttilega tengt fyrirmælaverk hennar við nótur í tónlist. Aðrir hafa bent á hækur, hinn órímaða og taktlausa ljóðstíl sem þróaðist upp úr tönkunni, sígildum japönskum ljóðstíl frá sextándu öld. Fyrirmælaverk Yoko Ono eru hins vegar ekki ljóð. Þau eru sjónræn listaverk, ný tegund myndlistar sem hún ástundaði ásamt öðrum nútímalistamönnum eins og John Cage og George Brecht. Eiginleikar þeirra sem myndlistarverk eru áréttaðir þar sem listakonan sjálf kallar þau málverk og ennfremur þar sem þau fást við málverkið. Verkin Málverk til að sjá himininn, 1961; Málverk fyrir vindinn, 1961; Reykjarmálverk, 1961; Málverk til að negla í, 1961; og Málverk til að sjá í huga sér, 1962, fela öll í sér umræðu um list. Eitt sinn sagði Yoko Ono, „Málverkin mín sem eru öll fyrirmælaverk (og öðrum er ætlað að vinna) komu eftir að klippimyndir, samsettar myndir og gjörningar héldu innreið sína í listaheiminn. Ef við veltum fyrir okkur eðli málverka minna sést að það má nota eitt þessara þriggja hugtaka, eða eitthvað nýtt, í staðinn fyrir orðið málverk. En mér líkar hugmyndin um málun því að hún kallar strax fram að mála, eins og að mála vegg, og það er skemmtilegt og fyndið.“ Hún þröngvar ekki fræðilegum hugmyndum um eigin verk upp á áhorfandann. Í staðinn skilur hún eftir „andrými“ fyrir áhorfendur/þátttakendur, þannig að verk hennar verða að veruleika í gegnum ljóðræna samræðu.

Frumleiki verka Yoko Ono liggur í forgengileika þeirra, öfugt við til dæmis list Marchels Duchamp sem var einnig fyrst og fremst huglæg. Hann hélt enn í hugmyndina um listhlutinn og hið sama gerðu margir af samtímamönnum Yoko Ono. Verk hennar eru hins vegar byggð á hugmynd sem er útfærð á hlutlausan hátt, án tilfinningalegra vídda, persónulegra tenginga eða huglægni, og efnisleg útfærsla þeirra er að stórum hluta ákvörðuð af áhorfandanum/þátttakandanum og felur jafnvel í sér upplausn/eyðileggingu verksins að lokum. Þannig eru verk Yoko Ono ferli (verður-er-var) með sinn innri tímaramma. Í listsögulegu samhengi var þetta róttæk breyting. Áður var litið á listaverk sem upphafna, tímalausa hluti (jafnvel þótt sköpun þeirra tilheyrði tilteknum tíma listasögunnar), sem varðveittir væru í sérstökum samfélagslegum stofnunum – listasöfnum – og væru um leið hluti af valdamiklu markaðskerfi. Yoko Ono tókst markvisst á við þetta upphafna eðli listaverka, frá listrænu sjónarmiði en einnig frá samfélagslegu og pólitísku sjónarmiði. Fyrirmælaverkin, sem eru andstæða hins táknræna listaverks, geta ekki orðið söluvara. Með því að undirstrika og draga athyglina að skammlífi listaverksins gerir Yoko Ono það hversdagslegt, rífur niður vegginn milli lífs og listar. Í staðinn fyrir að vera upphafinn og heilagur hlutur verður listaverkið skammvinnt líkamlegt og andlegt samband.

Þótt segja megi að í þessu tilliti tengist list Yoko Ono flúxushreyfingunni – sem vissulega dró úr upphafningu fagurfræðilegra og efnislegra eiginleika og ýtti undir umburðarlyndari og breiðari fagurfræðilega reynslu – á hún líka tengsl við menningarlegan bakgrunn listakonunnar í Zen-búddisma. Kjarni hans er hugleiðsla með það að markmiði að frelsa sálina úr jarðneskum fjötrum sínum. Í Zen er áhersla lögð á skilning burtséð frá rökrænni hugsun og leiðin til að öðlast hann er í gegnum koan, gátu sem engin rökrétt lausn er til á. Yoko Ono skilur listræna hugarsmíð sína frá efnislegu formi hennar og leggur áherslu á huglægar og andlegar hliðar, eða eins og hún segir sjálf um gjörninga sína: „Þetta er ekki „sam-koma“ eins og flestir gjörningar eru, heldur fæst áhorfandinn við sjálfan sig.“ 

Í listasögunni er ennfremur fáséð það örlæti sem Yoko Ono sýnir áhorfendum sínum. Sum fyrirmælaverkanna bjóða upp á takmarkað frelsi til tjáningar/reynslu þátttakandans, eins og sjá má í Málverk til að negla í, 1961 og Málverk til að vökva, 1962, þar sem þátttakan er bundin við einfalda endurtekningu. Í öðrum verkum, líkt og Málverk til að bæta litum við, 1966, Mamma mín er falleg, 1997 og Upprisa, 2013, gefur listakonan meira rými og býður áhorfendum að bæta við verkin og breyta þeim, oft á mjög persónulegan hátt. Á þennan hátt verður listaverkið andlegt eða líkamlegt samvinnuverkefni. Þátttaka annarra er lykilatriði í því ferli að leysa upp sérstöðu listaverksins – þar sem hægt er að vinna það í senn á mörgum stöðum og með ólíkum þátttakendum – og sama gildir um andstöðu þess við markaðslögmálin. Þá skal nefna annan eiginleika sem utanaðkomandi þátttaka hefur í för með sér, og sem hvað minnst kann að fara fyrir. Sá er að listamaðurinn missir stjórn á þróun og framvindu verksins, sem fyrir vikið öðlast nýtt líf í ýmsum útgáfum. Mörg hinna hlutbundnu fyrirmælaverka á sýningunni, eins og til dæmis Málverk til að negla í, 1961; Himnasjónvarp; Óskatré, 1996; Loftmálverk; já-málverk, 1966/2016; Hugsaðu þér frið kortainnsetningin, 2003; Upprisa, 2013 og Mamma mín er falleg, 1997, hafa verið fullkláruð af starfsfólki safnsins. Ekkert þessara verka kom á safnið í kassa sem fullgerð og einstök frummynd hefðbundins listaverks.

Eftir að hafa soðið listaverkið niður á frumstig hugmyndarinnar lét Yoko Ono öll persónuleg stílbrigði og tjáningu í efni lönd og leið, hugmyndir hennar geta æ síðan tekið á sig hvaða form sem er og með allri mögulegri tækni. En þótt upphafspunkturinn sé hvorki efnið né tæknin er samt haldið í vissa fagurfræðilega nálgun. Sem dæmi um það má nefna notkun Yoko Ono á hvítum lit, sem endurspeglar í senn þá staðreynd að í Austurlöndum fjær er hann litur dauða og sorgar, og að í vestrænni hugmyndafræði nútímans er hvítur hlutlaus, litleysa sem strokar út alla persónulega tjáningu eða tilfinningu. Gegnsæ efni koma endurtekið fyrir í verkum Yoko Ono sem huglægar undirstöður og eru annað einkenni listrænnar tjáningar listakonunnar.

Yoko Ono finnur upp ný listform og hleður þau frásögnum og táknrænni merkingu. Sum þeirra, eins og Upprisa, 2013, og Mamma mín er falleg, 1997, eru marglaga og láta lítið yfir sér í uppbyggingu og frásögn. Þau reiða sig að stórum hluta á framlag þátttakendanna til að mynda kraftmikil samsteypuverk og frásagnir sem í senn tjá sögu einstaklingsins og margradda sögu samfélagsins. Önnur eru beinskeyttari, allt að því ofbeldisfull, líkt og verk sem tengjast eyðileggingu og enduruppbyggingu, náttúruhamförum og hamförum af mannavöldum, eins og Ósýnilegt fólk, 2012, Lagfæringarverk, 1966 og Út, 1998. Hugmyndin um eyðileggingaraflið kemur fyrir í mörgum verkum Yoko Ono, sérstaklega upp úr 1980, en oftast nær er henni fylgt eftir með vonarneista eða einhvers konar líkn. Önnur verk eru bera með sér áleitnari pólitíska og samfélagslega skírskotun, eins og Upprisa, 2013, og Láréttar minningar, 1997. Þau minna okkur á að samfélög okkar stjórnast enn af „frumskógarlögmálinu“ og í þeim er gríðarlega þjáningu að finna. Það sem öll þessi verk eiga sameiginlegt er að þau hvetja til jafnréttis, friðar og hópaðgerða, efla meðvitund um eigin tilvist og tengsl við aðra. Listaverkin verða nokkurs konar áminning og boð um að taka ábyrga, siðferðilega og gagnrýna afstöðu.

List Yoko Ono er áskorun til hvers listasafns um að endurskoða hlutverk sitt og takmörk. Hún hvetur safnið til að endurskapa samræðuna við listamanninn og almenning. YOKO ONO: EIN SAGA ENN... býður upp á úrval af fyrirmælaverkum Yoko Ono frá síðastliðnum sex áratugum. Verkin eru sýnd í safninu, mótuð af hönnun hússins og starfsháttum stofnunarinnar, og öðrum verkum er miðlað á samfélagsmiðlum. Þessi framsetning á fyrirmælaverkum, ásamt ljósmyndum og kvikmyndum sem dreift er til almennings fyrir tilstuðlan veraldarvefsins og snjalltækja, undirstrikar forgengilega og óupphafna eiginleika þeirra.

Þótt list Yoko Ono sé opin og margþætt, drifin áfram af þörf fyrir samvinnu með öðrum, heldur hún alltaf kjarna sínum sem er ófrávíkjanlegur. Að miklu leyti fást verk hennar við eðli sjálfrar listarinnar, auk trúar hennar á að okkar bíði betri tíð, „ef við bara óskum þess nógu heitt.“.

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun

Ítarefni

Sýningarskrá

Sýningarstjóri/-ar

Gunnar Kvaran

Listamenn

Boðskort