Mynd: Íslensk samtíma­list 2002

Mynd: Íslensk samtímalist 2002

Mynd: Íslensk samtímalist 2002

Hafnarhús

-

Orðið „mynd“ þjónar margvíslegu hlutverki í íslensku og birtist í ótal samsetningum: Myndlíking, hugmynd, ímynd, ómynd, myndun, frummynd og tálmynd, svo aðeins sé minnst á nokkrar þeirra. Íslensk myndlist endurspeglar fjölhæfni orðsins og þann fjölbreytta hugsanagang sem hefur mótað og mótaðist í tungunni og menningarheimi okkar.

Samtímamyndlist á Íslandi er í raun ótrúlega fjölbreytt og öflug. Hún er vissulega í takt við það sem helst er að gerast í samtímalist annarra landa, en á sér þó flóknar rætur sem sumar liggja til útlanda meðan aðrar hljóta að teljast innlendur gróður.

Saga íslenskrar myndlistar sýnir okkur hve flókið þetta samhengi er. Á nítjándu öld sóttu sífellt fleiri Íslendingar til útlanda og kynntust þar því helsta sem var á döfinni í menningu og listum.

Smátt og smátt hefst saga íslenskrar nútímalistar og á tuttugustu öldinni fylgjast íslenskir listamenn með öllu því helsta sem gerist í samtímalistum. Þó er óhætt að segja að mikil umskipti hafi orðið á sjöunda áratugnum, ekki síst fyrir tilstilli Dieters Roth og þeirra manna sem hann kynnti hingað. Með þeim kynntust ungir listamenn því nýjasta í róttækri myndlist og brutu upp allt það sem áður hafði verið. En þrátt fyrir þessi sterku áhrif var þetta engan veginn einsleitur hópur og bendir það til þess að áhrif Dieters hafi ekki bara falist í því að kynna nýjan stíl, nýja stefnu, heldur kannski fyrst og fremst í því að kenna hverjum að treysta á sjálfan sig og finna sína eigin leið til að vinna úr umhverfi sínu og hugmyndum. 

Þessari sýningu er fyrst og fremst ætlað að leiða saman nokkra af listamönnum yngri kynslóðarinnar í samræður um möguleika mynd og forma, án þess þó að setja þeim fyrir nein ákveðin verkefni; hér talar hver með sinni röddu og einmitt það dregur skýrast fram möguleikana sem búa í samtímalist okkar. Líkt og í listaheiminum sjálfum koma hér saman ýmsar aðferðir og nálganir.

Listamennirnir taka hver á sinn hátt á efninu, sumir með miklum slagkrafti en aðrir svo fínlega að inntaki verkanna er næstum eins og hvíslað að áhorfandanum. En enginn þeirra apar eftir öðrum, allir hafa mótað sterkan persónulegan stíl úr þeim straumum og stefnum sem þeir hafa kynnst. 

Meðan sýningar á listasöfnum Vesturlanda verða sífellt einsleitari er eins og íslensk myndlist verði æ fjölbreyttari. Sumir mundu kannski segja að hér ægi öllu saman en þegar betur er að gáð má kannski finna með þessum ólíku listamönnum einhvern samhljóm, einhverja sameiginlega nálgun sem líklega er vart greinanleg nema með tilvísun í íslenskt umhverfi þeirra og það jafnræði sem er með þeim þrátt fyrir fjölbreytileikann. Ef spurt er hvað einkenni „íslenska“ myndlist hlýtur svarið einmitt að vera þetta: Hér hópast myndlistamenn ekki saman eftir stefnum heldur er hver þeirra fyrir sig á við heila stefnu og þeir sem ná að þroska list sína í þessu umhverfi stendur jafnfætis öðrum..