Hafnarhús
-
Þegar Erró hóf, árið 1977, að gera myndaseríuna Þúsund og eina nótt var hugmynd hans sú að setja saman 1001 myndverk sem hann myndi síðan birta í bók.
Hverju verki átti að fylgja texti eftir rithöfund. En árið 1981 hafði honum tekist að mála aðeins 121 málverk. Erró hélt síðan áfram árið 1982 og málaði 5 málverk sem tilheyrðu myndaröðinni 1002 nætur og síðan á árunum 1984-85 bætti hann við myndaröðinni 1003 nætur og málaði 11 málverk. Alls málaði hann 137 málverk sem tengjast “1001 Nótt”.
Margir þekkja söguna um Scheherazade, dóttur stórvesírsins, sem sagði sultaninum, eiginmanni sínum, á hverju kvöldi, sögu þar sem æsispennandi framhaldi hennar var alltaf frestað til næsta dags: þetta voru brögð sem hún beitti til að komast hjá dauðanum. Þannig hófst þúsund og ein nótt með hrífandi sögum, sem koma jafnt úr fræði- sem og alþýðubókmenntum. Þjóðsögur, ævintýri, ferðasögur, rómantískar skáldsögur, stríðssögur og sagnir unnar úr indverskum, arabískum, persneskum, egypskum og hellenskri arfleifð mynda þetta nafnlausa safn sem hefur verið auðgað með viðaukum í aldanna rás og sem notið hafa mikilla vinsælda í Evrópu allt frá 18. öld.
Nætur Errós myndgera enga sérstaka sögu frá Þúsund og einni nótt, en þar birtast sambærileg þema líkt og ferðalög, ást, ofbeldi. Nokkrar tilvísanir til Austurlanda er að finna hér og þar, í gegnum mótíf, sem eru fengin að láni úr vestrænum málverkum: ambáttir og kvennabúr, ljónaveiðar og þættir úr biblíunni. En að mestu leyti vísa tilvitnanir í nútímasamfélagið, landvinninga út í geimnum, kínversku menningarbyltinguna, heimsvalda- og nýlendustríð. Þessar myndir eru torræðar og mynda ekki neina sérstaka heild. Með klippimyndum framkallar Erró alls kyns nálganir, dularfullra og mótsagnakenndra mynda, sem rugla áhorfandann í ríminu. Erró er sjálfum sér samkvæmur, frjáls og fordómalaus og án fyrirfram gefna hugmynda tileinkar hann sér misleit efni fjölmiðlaheimsins og klippir saman verk sem hafa til að bera kröftug sjónræn áhrif.
Sýningarstjóri
Danielle Kvaran
Fjölmiðlaumfjöllun
Listamenn