Hafnarhús
-
Er hægt að lifa á listinni?
Í verkum sínum skoðar Sæmundur Þór Helgason hlutverk myndlistar og þau skilyrði sem henni eru sett í tækni- og markaðsvæddum heimi nútímans. Verk hans mótast af forsendum sýningarinnar hverju sinni og velta upp spurningum um þá efnahagslegu, pólitísku og samfélagslegu virkni sem myndlist hefur í samtímanum.
Sýningin ÁVÖXTUN % í D-sal Hafnarhússins er fyrst og fremst skilyrt af efnahagslegri forsendu hennar, það er þóknun listamannsins. Í stað þess að nýta þóknunina við gerð sýningarinnar ákvað Sæmundur Þór að ávaxta fjármununum.
Listamaðurinn hafði samband við íslenska banka og fékk fjármálaráðgjöf þar sem skoðaðar voru ýmsar ávöxtunarleiðir. Hann túlkaði ráðgjöf bankanna og útfærði tillögur þeirra á stór veggspjöld sem sjá má á sýningunni. Til þess að komast hjá efniskostnaði, og jafnframt til þess að hámarka ávöxtunarféð, ákvað listamaðurinn að sækja um styrk hjá fyrirtækinu ARTIS sem sérhæfir sig í prenti og merkingum fyrir fyrirtæki. Í staðinn gaf listamaðurinn eftir hluta rýmisins undir auglýsingar fyrirtækisins, en lógó þess þekur nú súlur og gólf salarins. Með þessum hætti ræðst útkoma sýningarinnar af myndmáli markaðarins.
Þetta á líka við um kynningarefni sýningarinnar, en videó sem sjá má fyrir utan D-salinn er innblásið af ímyndum úr alþjóðlegum myndabönkum og auglýsingum fjármálafyrirtækja.
Í fljótu bragði er sýningin tilraun Sæmundar Þórs til þess að hagnast á listinni. Aftur á móti er hún einnig aðferð listamannsins til að hverfa frá hefbundinni sköpun og framsetningu myndlistar. Á sýningunni hefur draumurinn um að lifa á listinni verið tekinn alvarlega og settur í samhengi við markaðsvæðingu samtímans. Hér er vinna listamannsins einnig tengd starfsemi markaðarins, sem miðar að sem mestum hagnaði með sem minnstri fyrirhöfn. Í þessu tilliti mætti tala um verk Sæmundar Þórs sem hvítflibbalist, sem vísar í þægilegt starf sem útheimtir ekki líkamlega vinnu, öfugt við starf hins iðjusama listamanns. Myndlist sem bisness.
Sýningin ÁVÖXTUN % fæst við hlutverk myndlistarinnar í markaðsvæddum heimi og skírskotar til einstaklingshyggju samtímans. Hana má sjá sem innlegg í umræðu líðandi stundar um kjarabaráttu myndlistarmanna og stöðu þeirra á vinnumarkaði. Hún opnar í kjölfar árlegrar úthlutunar listamannalauna sem ár hvert leiðir til hatrammrar orðræðu um réttmæti þeirra.
Sæmundur Þór Helgason (f. 1986) býr og starfar í London þar sem hann lauk MA gráðu í myndlist frá Goldsmiths Háskólanum árið 2015. Hann lauk BA gráðu úr Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam árið 2012. Af nýlegum sýningum sem Sæmundur Þór hefur tekið þátt í má nefna ‘CO-WORKERS – Network as Artist’ í Musée d’Art Moderne de la Ville de París (2015), ‘Vanity Fair | Demo Mode’ í Project Native Informant í London (2015) og ‘#KOMASVO’ í Listasafni ASÍ (2015). Síðasta einkasýning Sæmundar Þórs hér á landi var í Kunstschlager árið 2013.
Kynningarefni
Ágúst Eiríksson; ljósmyndir, Sigurður Ámundason; framkoma í auglýsingum, Fatnaður; JÖR, tónlist; Podington Bear, kvikmyndataka á opnun; Dagur Leó Berndsen.
Um D-salinn
Í D-sal Hafnarhússins eru að jafnaði sýnd verk eftir listamenn sem ekki hafa áður haldið einkasýningar í stærri söfnum landsins. Markmið sýningaraðarinnar er að gefa efnilegum listamönnum tækifæri til að vinna innan veggja safnsins og beina athygli gesta að nýjum og áhugaverðum hræringum innan listheimsins. Á árinu 2016 eru áætlaðar alls fimm sýningar í sýningaröðinni, en sýnendur eru Sæmundur Þór Helgason, Berglind Jóna Hlynsdóttir, Arnfinnur Amazeen, Örn Alexander Ámundason og Ingibjörg Sigurjónsdóttir.
Sýningaröðin, sem nefnd er eftir D-sal Hafnarhússins, hófst árið 2007 og snýr nú aftur eftir nokkurra ára hlé. Margir áhugaverðir listamenn fylla þann hóp sem sýnt hefur í D-sal en að meðtöldum með Sæmundi Þór hafa 24 listamenn tekið þátt í verkefninu sem hlaut Menningarverðlaun DV árið 2009..
Sýningarstjóri/-ar
Heiðar Kári Rannversson
Umfjöllun fjölmiðla
Listamenn
Boðskort