Byggt yfir hugsjónir: Breið­holt frá hugmynd að veru­leika

Byggt yfir hugsjónir: Breiðholt frá hugmynd að veruleika

Byggt yfir hugsjónir: Breiðholt frá hugmynd að veruleika

Hafnarhús

-

Á sýningunni er rakin þróun Breiðholtsins með hliðsjón af samfélagsumræðunni sem því fylgdi. Skipulagsmál Reykjavíkur hefur borið hátt í umræðunni undanfarið, en það er þó ekki í fyrsta skipti sem þau eru áberandi í borginni. Skipulag hennar var þrætumál stjórnmálamanna meira og minna alla 20. öldina, en deilur á þessu sviði bar einna hæst þegar Breiðholtshverfið varð til.

Umræðan um Breiðholtið hefur verið mikil og stöðug allt frá því framkvæmdir hófust þar, og hafa alla tíð verið mjög skiptar skoðanir um hvernig til hefur tekist.

Helstu ástæður þess að ráðist var í þessa miklu uppbyggingu voru augljósar: í Reykjavík hafði orðið sannkölluð fólksfjölgunarsprengja á sjötta áratugnum, fólk bjó víða í heilsuspillandi húsnæði, og þegar kom fram á sjöunda áratuginn krafðist verkalýðshreyfingin tafarlausra úrbóta.

Því varð uppbygging hverfisins bæði hröð og umfangsmikil – og þrátt fyrir góðan ásetning varð afraksturinn ekki öllum að skapi, eins og sjá má og heyra enn í dag á ýmsum niðrandi tilvísunum til hverfisins.  Sýningin “Breiðholtið – frá hugmynd að veruleika” er tileinkuð þessu mikla umróti í sögu Reykjavíkur. Byggingalistardeild Listasafns Reykjavíkur hefur áður staðið fyrir fróðlegum sýningum um byggingalist og einstaka arkitekta, en með sýningunni “Borgarhluti verður til” árið 1999 var farið inn á nýjar brautir og fjallað um þróun byggingalistar og skipulags í Reykjavík eftirstríðsáranna. Sýningin nú er eðlilegt framhald slíkra verkefna.

Við undirbúning sýningarinnar hefur verið leitast við að draga fram helstu þætti sem skipulag Breiðholtsins byggði á, og lýsa þeirri miklu vinnu sem höfundar skipulagsins lögðu á sig til að þjóna framtíðarhagsmunum hverfisbúa, eins og þeir komu mönnum fyrir sjónir þegar unnið var að þessu verki. Það hefur reynst einkar fróðlegt að ræða við skipulagshöfunda og heyra þeirra viðhorf – bæði eins og þau voru á þeim tíma sem þeir unnu að þessu verkefni, og svo nú, áratugum síðar, þegar reynslan hefur leitt í ljós hvað hafi gengið vel og hvað hafi gengið miður.

Margar borgarstofnanir hafa lagt hönd á plóginn, því að gögn um uppbyggingu Breiðholtsins liggja víða. Fyrir hönd Listasafns Reykjavíkur vil ég þakka öllum þessum aðilum samstarfið, og sérstaklega nefna til Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Borgarskjalasafn, Borgarskipulag og embætti byggingafulltrúa, en í öllum þessum stofnunum var starfsfólk boðið og búið að aðstoða við undirbúning sýningarinnar.

Jafnframt hefur fjöldi einstaklinga lagt hönd á plóginn og veitt mikilvægar upplýsingar um afmörkuð atriði.

Loks ber að þakka Ríkisútvarpinu / Sjónvarpi sérstaklega fyrir samstarfið við undirbúning sýningarinnar, en án hins ríkulega myndefnis sem þar er að finna um uppbyggingu Breiðholtsins, hefði þessi sýning ekki orðið nema svipur hjá sjón. Eiríkur Þorláksson..

Myndir af sýningu