Átthaga­mál­verkið

Stefán V. Jónsson (Stórval), Herðubreið, 1992

Átthagamálverkið

Kjarvalsstaðir

-

Við ferðumst hringinn í kringum landið í gegnum sögu sem spannar rúma öld. Við stöldrum við og lítum firði, dali, þorp og bæi með augum fólks sem þekkir betur til en nokkur annar.

Þetta eru Átthagamálverk sem máluð eru af ást og hlýju, uppfull af tilfinningu fyrir staðháttum og minningum fyrri tíma. Svo vill til að á þessu ferðalagi erum við óvenju heppin með veður.

Sýning á átthagamálverkum í Vestursal Kjarvalsstaða er rannsóknarverkefni um afkima listasögunnar. Listamenn, ýmist lærðir eða sjálfmenntaðir, hafa mundað pensilinn og skapað verk í persónulegu samtali við staði og minningar. Hvatinn að baki verkunum byggist síður á metnaði fyrir því að taka þátt í framvindu strauma og stefna í fagurfræðilegu samhengi, en mun fremur einlægri löngun til að sýna og segja frá, dýpka tengsl, muna og varðveita. Um leið og verkin skrásetja ytri verkuleika segja þau sögu einstaklinganna sem hafa skapað þau.

Saga átthagamálverksins er jafnframt saga samfélagsbreytinga. Á tuttugustu öld fluttist fólk annars vegar af bæjum í þéttbýli og hins vegar frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Þessir búferlaflutningar eru samofnir breytingum á sviði menntunar og menningar, verslunar og þjónustu, atvinnu- og efnahagsþróunar sem og félagslegra tengsla. Átthagamálverkin standa eftir eins og tilraun til þess að hægja á þessari framrás, stöðva tímann, fanga eitthvað áður en það verður um seinan. Hvernig tala þau til okkar í dag?

Sýningarstjóri: Markús Þór Andrésson