Aftur í sand­kassann - Listir og róttækar kennslu­að­ferðir

The Book of Aesthetic Education of the Modern School, Priscila Fernandes 2014-2015 Installation view at Foundation Joan Miró, Espai 13, Barcelona Courtesy of the artist, Photo: E.C. Thomson

Aftur í sandkassann - Listir og róttækar kennsluaðferðir

Hafnarhús

-

Tengsl lista og mennta, sköpunar og framleiðslu er umræðuefni sem skýtur víða upp kollinum í samfélagsumræðu samtímans. Þetta á við hvort sem rætt er um möguleika atvinnulífsins til framþróunar eða hlutverk menntakerfisins í samfélaginu. 

Á sýningunni Aftur í sandkassann: Listir og róttækar kennsluaðferðir hefur sýningarstjórinn, Jaroslav Anděl, valið að sýna verk nokkurra samtímalistamanna sem spyrja spurninga um eðli og hlutverk menntunar og líta jafnframt á sköpun sem lykilþátt í samfélaginu. Vísað er til hugmynda umbótasinna og hugsjónamanna á sviði menntamála og tvær mótsagnakenndar hliðar menntunar eru dregnar fram. Annars vegar er bent á að menntun og lærdómur hafa frelsandi áhrif og tengjast lýðræði og grundvallaratriðum þess, svo sem frelsi og jafnrétti.

Hins vegar er bent á að menntakerfið er afurð upplýsingastefnunnar og stofnanavæðingar þar sem áhersla er lögð á einsleitni og undirgefni frekar en sköpun og fjölbreytileika. Verkin á sýningunni eru af ýmsum toga og er hluti þeirra byggður á þátttöku sýningargesta, sem mun eiga sér stað bæði innan og utan safnsins. Verk listamanna á borð við Michael Joaquin Grey, Ane Hjort Guttu og Priscila Fernandes mynda nokkurskonar kjarna sýningarinnar ásamt verki Luis Camnitzer sem teygir sig út fyrir veggi safnsins. Þar að auki eru á sýningunni verk eftir Jim Duignan, Markus Kayser, James Mollison, Calvin Seibert, Renzo Piano og listahópinn The Society for a Merrier Present. 

Aftur í sandkassann: Listir og róttækar kennsluaðferðir fer frá Listasafni Reykjavíkur um Evrópu og til Bandaríkjanna en markmið hennar er meðal annars að tengja saman fólk á ólíkum sviðum, bæði hér á landi og erlendis. Sýningin byggir á samstarfi alþjóðlegra listamanna, vísindamanna og kennara sem eru leiðandi hver á sínu sviði. 

Í tengslum við sýninguna fer fram metnaðarfull fræðslu – og viðburðadagskrá fyrir almenning og  fagfólk á sviði menntamála. Auk fyrirlestra og málþings um róttækar kennsluaðferðir mun Biophilia menntaverkefnið halda smiðjur í Hafnarhúsinu meðan á sýningunni stendur.

Sýningarstjórinn Jaroslav Anděl hefur skipulagt fjölda alþjóðlegra sýninga á nútíma- og samtímalist einkum í Evrópu en einnig í Bandaríkjunum og Japan. Hann hefur jafnframt  skrifað fjölda bóka og starfað sem ráðgjafi Evrópuráðsins í verkefninu Smarter Creativity, Smarter Democracy. Jaroslav Anděl býr í Prag og New York..

Myndir af sýningu