Erró

Odelvíð­átta / Odelscape

Breidd:

300 cm

Hæð:

200 cm

Flokkur:

Málverk

Ár:

1982-83

Víðáttumyndir („scape“ myndir) Errós eru vitnisburður um þá sjónrænu ofgnótt sem einkennir fjöldamenninguna. Þar hrúgar hann saman í gríðarstór breiðtjaldsmálverk ákveðinni tegund af hlutum. Odelscape eða Odelvíðátta sækir efnivið sinn í blekteikningar Alans Odle frá árunum 1920–30 sem ætlaðar voru fyrir útgáfu á Kímnisögum (Contes drôlatiques) eftir Balzac og Gargantúa eftir Rabelais. Erró kynntist þessum myndum á sýningu á verkum Odle þar sem vinur hans Claude Givaudan var sýningarstjóri og fékk þær lánaðar. Hann breytti vinnsluaðferðum sínum þegar hann málaði þetta verk, að minnsta kosti á fyrstu stigum vinnunnar. Hann byrjaði ekki á því að gera klippimynd eins og fyrir aðrar víðáttumyndir sínar. Hann málaði hverja teikningu fyrir sig fríhendis á strigann og notaði ekki myndvarpa. Í teikningum Odle er línuskriftin afar frjálsleg og litmynd Errós dregur dám af þessu frjálsa flæði með sínum bugðóttu og munúðarfullu línum og hinni liðugu og kraftmiklu pensilskrift.