Breidd:
64 cm
Hæð:
48.5 cm
Flokkur:
Teikning
Ár:
1957
Árið 1957 kom Erró til Íslands til að setja upp fyrstu einkasýningu sína í Listamannaskálanum í Reykjavík. Hann fékk vinnustofu í Iðnskólanum í Reykjavík til afnota, og þar bjó hann til hina ofsafengnu syrpu Sur-Atom sem sýnir andstyggilegar, grettnar fígúrur með kringlótta hausa flæktar saman í endalausum átökum. Þessar myndir minna á heimsendamyndirnar í Beinagrinda-syrpunni að því leyti að leiðarminnið er eyðilegging, þjáning og dauði. Munurinn er sá að hér er kjarnorkustríð tákn hins illa. Myndirnar eru teiknaðar og litaðar með snöggum dráttum og endurspegla hráa ótamda sköpunargáfu. Erró notar tjáningarríkar, misþykkar línur og fáa andstæða liti til þess að rissa upp ofbeldisfullar og ágengar senur þar sem þröngir rammar og takmörkuð dýpt myndrýmisins undirstrika átökin.