Kjarvalsstaðir
-
Á sýningunni Vistkerfi lita er tekist á við þörf mannsins fyrir að tilheyra ákveðnum stað í heiminum. Árið 2012 eignaðist Hildur landspildu í Flóahreppi. Hún hafði þá engin tengsl við svæðið en hefur verið að festa rætur og byggja upp framtíð á þessum stað.
Spildan er í miðju bændasamfélagi, þar er flatlent og víðsýnt til allra átta. Þar vex fjölbreyttur gróður sem algengur er á þessu landsvæði. Einkennandi eru þúfur þar sem meðal annars vex blóðberg, krossmaðra, hrútaberjalyng og þursaskegg, einnig engjar með klófífu, hálmgresi og mýrasóley, og graslendi þar sem vex ilmreyr, ásamt bugðupunti, mjaðjurt, blávingli og hálíngresi.
Sýningin Vistkerfi lita hefur þennan stað sem útgangspunkt. Fyrir Hildi er landspildan vettvangur til að velta fyrir sér viðfangsefnum í tengslum við það að eiga sér rætur á tilteknum stað og ennfremur þeirri vistfræðilegu röskun sem umgengni mannsins við náttúruna getur valdið. Í gegnum landið staðsetur hún sig í tíma og rúmi, persónulega, pólitískt og listrænt.
Plönturnar á landinu eru upptökutæki fyrir staðinn sem þær vaxa á og hið vistfræðilega og samfélagslega kerfi sem þær tilheyra.
Þær safna upplýsingum frá jarðveginum og andrúmsloftinu í gegnum rætur, laufblöð, blóm og krónublöð. Þessar upplýsingar yfirfærast í litinn sem Hildur vinnur úr plöntunum og notar í sýningunni Vistkerfi lita.
Verkin á sýningunni eru bundin tíma og stað, þau mynda kerfi sem dregur fram mismunandi tilfinningar, upplýsingar og eiginleika staðarins. Í verkunum skoðar Hildur landið og tilvist þess frá mismunandi sjónarhornum. Þetta eru persónuleg kerfi, huglæg og sjálfstæð sem hlutgera vangaveltur Hildar um samband hennar við náttúruna og staðinn. Hildur Bjarnadóttir (f. 1969) býr og starfar í Reykjavík og í Flóahreppi. Hún lauk námi frá textíldeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1992 og útskrifaðist árið 1997 með MFA próf frá nýlistadeild Pratt Institute í Brooklyn, New York. Síðan haustið 2013 hefur hún stundað doktorsnám í myndlist við Listaháskólann í Bergen. Hildur hefur haldið fjölda einkasýninga víða um heim, þær helstu eru: Colors of Belonging í Bergen Kjøtt í Noregi 2015; Subjective Systems í Kunstnerforbundet í Osló og Kortlagning lands í Hverfisgalleríi árið 2014; Flóra illgresis í Hallgrímskirkju 2013; Samræmi í Hafnarborg í Hafnarfirði ásamt Guðjóni Ketilssyni 2011; Encircling í Pollock Gallery, Southern Methodist University í Texas í Bandaríkjunum 2008; Ígildi í Safni, Bakgrunnur í i8 og Flötur í Listasafni ASÍ árið 2006 og Unraveled í The Boise Art Museum í Boise, Idaho 2005.
Hildur hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og þar má meðal annars nefna Your Compound View í Listasafni Reykjavíkur, 2013; Elemental, Havremagasinet í Bodø, Svíþjóð og Carnegie Art Award Exhibition, Stenersens Museum í Osló, 2012-13; Sjónarmið – á mótum myndlistar og heimspeki í Listasafni Reykjavíkur, 2011; Project Ten Ten Ten, The Mint Museum í Charlotte, Norður-Karólínu, BNA, 2010; Blurring the Line, Pulliam Deffenbaugh Gallery í Portland, Oregon, BNA, 2008; Radical Lace and Subversive Knitting, The Museum of Art and Design í New York, BNA, 2007 og Málverkið eftir 1980 í Listasafni Íslands, 2006. Sýningin Vistkerfi lita er styrkt af Bergen Academy of Art & Design, Norwegian Artistic Research Fellowship Programme og Myndlistarsjóði..