Kjarvalsstaðir

Kjarvalsstaðir voru teknir í notkun árið 1973 og er fyrsta byggingin hér á landi sem var sérstaklega hönnuð fyrir myndlistarsýningar. Í safninu eru reglulega sýningar á verkum Jóhannesar S. Kjarvals (1885-1972) enda skipar hann sérstakan sess í íslenskri menningar- og listasögu sem einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar fyrr og síðar. Þar eru jafnframt sýningar á málverkum og skúlptúrum eftir nafnkunna innlenda og erlenda meistara nútímalistar.

Gluggar hússins ná frá gólfi og upp í loft og fyrir utan er Klambratún sem er eitt fárra útivistarsvæða í Reykjavík sem var hannað og skipulagt sem hluti af listrænni menningu borgarinnar.

Upplagt er að njóta útsýnisins um leið og ljúffengra veitinga á kaffihúsi safnsins. Kaffihúsið er opið frá klukkan 10:30-16:30 alla daga vikunnar. Njótum samveru í skapandi umhverfi á Kjarvalsstöðum.

Sýningar í Kjavalsstöðum

Jóhannes S. Kjarval: Skjaldbreiður séð úr Grafningi, 1958.
22.08.2016 -31.12.2017
Jóhannes S. Kjarval, Skjaldmey, 1961.
22.08.2016 -31.12.2017

Kjarval

Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885–1972) skipar sérstakan sess í íslenskri menningarsögu sem einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar. Hann var goðsögn í lifanda lífi og í augum margra persónugervingur hins rómantíska listamannabóhems. Rætur hans lágu í hinu íslenska bændasamfélagi, en líf hans og listsköpun tengist menningarlegri viðreisn þjóðarinnar á fyrri hluta 20. aldar órjúfanlegum böndum. Hann er þekktastur fyrir túlkun sína á náttúrunni og sérstaklega fyrir þann dulúðuga myndheim sem birtist í verkum hans. Á löngum ferli Kjarvals sem listmálara helst sú grundvallarsýn hans óbreytt að náttúran sé lifandi þó að áherslurnar í verkum hans þróist og breytist.

Á safneignarsíðu Listasafns Reykjavíkur er hægt að skoða ljósmyndir af verkum Kjarvals í eigu Listasafns Reykjavíkur.

Kjarvalsstaðir

Saga Kjarvalsstaða

Kjarvalsstaðir eru staðsettir á Miklatúni, einu fárra útivistarsvæða í Reykjavík sem hannað hefur verið og skipulagt sem hluti af listrænni menningu borgar. Bygginguna teiknaði Hannes Kr. Davíðsson og var hún vígð árið 1973 . Á Kjarvalsstöðum eru ávallt til sýnis verk úr safneign listmálarans Kjarvals sem ánafnaði Reykjavíkurborg stórt safn listaverka sinna og persónulegra muna, en auk þess eru þar settar upp sýningar á málverkum, höggmyndalist og byggingarlist viðurkenndra listamanna og arkitekta.

Jóhannes S. Kjarval, Krítík, 1946

Verk Kjarvals

Kjarval ánafnaði Reykjavíkurborg hluta listaverka sinna og persónulegra muna árið 1968. Listaverkagjöf Kjarvals voru aðallega teikningar og skissur. Hluti gjafarinnar var sýndur í fyrsta sinn við opnun Kjarvalsstaða árið 1973. Safnið hefur vaxið jafnt og þétt í gegnum árin; bæði hafa verk verið keypt en einnig hafa ýmsir einstaklingar fært safninu ómetanlegar gjafir.

Á safneignarsíðu Listasafns Reykjavíkur er hægt að sjá myndir af verkum Kjarvals í eigu Listasafns Reykjavíkur.