Ásmundarsafn | listasafnreykjavikur.is

Ásmundarsafn

Ásmundarsafn

Ásmundarsafn er helgað verkum myndhöggvarans Ásmundar Sveinssonar (1893-1982) og var safnið formlega opnað árið 1983. Safnið er til húsa í einstæðri byggingu sem var heimili og vinnustofa listamannsins. Í Ásmundarsafni er ávallt sýning á verkum Ásmundar sem ánafnaði Reykjavíkurborg stóru safni listaverka sinna auk byggingarinnar eftir sinn dag. Þá eru reglulega haldnar sýningar á verkum annarra listamanna í safninu sem hafa gjarnan vísun í list Ásmundar.

Ásmundur var einn af frumkvöðlum höggmyndalistar hér á landi og hannaði bygginguna að mestu leyti sjálfur á árunum 1942-1959. Hann byggði meðal annars bogalaga byggingu aftan við húsið sem var bæði hugsuð sem vinnustofa og sýningarsalur. Arkitektinn Mannfreð Vilhjálmsson hannaði síðar viðbyggingu sem tengir aðalhúsið og bogabygginguna saman. Formhugmyndir hússins eru sóttar til Miðjarðarhafsins, í kúluhús araba og píramída Egyptalands.

Í garðinum við safnið er að finna mörg verka Ásmundar sem hafa verið stækkuð eða unnin sérstaklega til að standa utandyra.

Sýningar í Ásmundarsafni

Ásmundur Sveinsson

Ásmundur Sveinsson (1893–1982) var einn af frumkvöðlum íslenskrar höggmyndalistar. Fyrr á árum mættu verk hans iðulega andstöðu og hörðum dómum en með tímanum hafa þau fest sig í sessi sem ein af birtingarmyndum íslenskrar sagnahefðar, samfélags og náttúru á 20. öld.

Ásmundarsafn er staðsett við Sigtún þar sem áður voru grýttir melar og gróðursnautt holt í útjaðri Reykjavíkur. Húsið er byggt í þremur áföngum 1942, 1946 og 1955-59. Það er ekki hannað á hefðbundinn hátt heldur er byggingin sköpunarverk myndhöggvarans Ásmundar Sveinssonar sem fékk þó aðstoð Einars Sveinssonar arkitekts við frágang uppdrátta.