Erró: Svart og hvítt

Erró, Wilsonscape,1989.

Erró: Svart og hvítt

Hafnarhús

-

Á þessari sýningu gefur að líta um þrjátíu ný og nýleg svarthvít málverk eftir Erró. Verkin, sem flest koma beint frá vinnustofu hans í París, vitna enn og aftur um sköpunarkraft og uppfinningasemi listamannsins. Í þessum verkum blandar hann leikandi saman sögulegum persónum og manga- og teiknimyndasögufígúrum.

Myndefnið er fjölbreytt og óhætt að segja að flestum hugðarefnum listamannsins séu gerð skil en Erró er þekktur fyrir að láta sér fátt óviðkomandi. Erró hefur unnið áhrifamikil málverk þar sem hann sækir innblástur í heim myndasagna, listasöguna, þetta eru verk ólgandi af kaldhæðni og kímni gagnvart samfélagsmálum og mannlegu eðli. 

Margir þekkja stórar og litríkar myndir Errós - en færri tengja hann við myndir í svarthvítu. Á löngum ferli hefur hann þó öðru hverju málað myndir, þar af margar mjög stórar, í svarthvítu. Það var þó ekki fyrr en árið 2014 sem Erró ákvað að mála heila syrpu eingöngu í svart/hvítu. Hann setti saman fjölda samklippimynda úr ólíkum myndum sem flestar voru í lit og lét skanna og prenta samklippurnar í svarthvítu.Þessi stafrænu prent notaði hann sem fyrirmyndir að málverkunum.

Erró er fæddur árið 1932 og er tvímælalaust einn þekktasti samtímalistamaður Íslendinga. Eftir nám á Íslandi innritaðist hann í listaakademíuna í Ósló tvítugur að aldri. Árið 1954 stundaði hann nám við listaakademíuna í Flórens og síðan í Ravenna þar sem hann lagði áherslu á gerð mósaíkmynda. Hann fluttist til Parísar árið 1958 og var þar tekið opnum örmum í hópi súrrealista. Árið 1963 fór Erró í fyrsta sinn til New York og komst í kynni við popplistina sem þá var að ryðja sér til rúms. Næstu ár fékkst hann við ýmiss konar listform, svo sem gjörningalist og tilraunakennda kvikmyndagerð auk málaralistar. Hann varð brátt einn af forvígismönnum popplistarinnar og evrópska frásagnarmálverksins. Listasafn Reykjavíkur varðveitir fjölda verka eftir listamanninn og eru árlegar sýningar á verkum hans í Hafnarhúsi..

Myndir af sýningu

Myndir frá opnun